Þegar Hringborð norðurslóða var haldið í Hörpu unnu listamenn frá Jakútíu í Síberíu að gerð súlu úr íslenskum rekaviði. Kallast hún „Serge“ og er tákn gestristni, fjölskylduhamingju og vináttu. Eru svona súlur algengar í Jakútíu þar sem henni er komið fyrir á áberandi stað í garðinum. Jakútíufólk er mikið hestafólk og hesturinn er snar þáttur í menningu þeirra. Því er súlan skreytt með hrosshárum og armarnir tákna höfuðáttirnar fjórar að sögn Mariia Shishigina-Pálsson frá Jakútíu en hún býr hér á Íslandi.
Var súlan fullgerð fyrir utan Hörpuna en síðan var henni komið fyrir hjá Jóhannesi Viðari Bjarnasyni, Fjörugoða, við heimili hans að Hliði á Álftanesi þar sem hann byggir upp ferðaþjónustu. Hafði myndast vinskapur með fólki frá Jakútíu á síðasta ári þegar Hringborg norðurslóða var haldið og var mikil hátíð á Hótel Víking við Víkingastræti. Fór Jóhannes svo með fylgdarliði í heimsókn til Jakútíu.
Súlan var vígð að Hliði með töluverðri athöfn, ræðum, söng, dansi og trúarathöfnum. Þar spilaði m.a. Spiridon Shishigin á khomus eða gyðingahörpu, munngígju, en Spiridon er einn þekktasti khomusleikari heims.
Hugmyndin að gerð súlunnar kom frá Mariia Shishigina-Pálsson þegar hún flutti til Íslands fyrir 5 árum. Var súlan gerð að frumkvæði Aleksandr Pavlovs forstjóra Kierge skartgripafyrirtækisins og þekktum einstaklingi í heimalandinu. Naut hann dyggrar aðstoðar Ruben Anton Komangapik frá Nunavut í Kanada.
Smíðin fyrir utan Hörpu vakti mikla athygli og á fréttavefnum Yakutia Today má sjá myndir m.a. af forseta Íslands og framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna við súluna.