fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimUmræðanSamráðsleysi við gerð fjárhagsáætlunar

Samráðsleysi við gerð fjárhagsáætlunar

Árni Rúnar Þorvaldsson skrifar

Skýrasta birtingarmynd áhugaleysis meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks á samráði og lýðræðislegri þátttöku íbúa, þrátt fyrir fögur fyrirheit í málefnasamningi meirihlutans, er meðhöndlun hans á tillögu Samfylkingarinnar um opinn kynningarfund um fjárhagsáætlun. Meirihlutinn hafði engan áhuga á viðræðum og skoðanaskiptum við bæjarbúa um þetta lykilstjórntæki bæjarstjórnar. Háfleyg orð í málefnasamningi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks um að “Íbúar verði hvattir til frekari þátttöku í stefnumótun, ákvörðunum og lýðræðislegri umræðu í bæjarfélaginu” virðast því án innihalds. Enn og aftur leggja bæjarfulltrúar meirihlutans á flótta undan eigin orðum.

Verkin sýna merkin

Áhersla á opin og lýðræðisleg vinnubrögð þar sem íbúar hafa fjölbreytt tækifæri til áhrifa er grundvallaratriði í stefnu Samfylkingarinnar. Og þar sýna verkin merkin. Undir forystu Samfylkingarinnar í Hafnarfirði voru stigin stór skref til aukinnar þátttöku íbúa í mikilvægum ákvörðunum. Opnað var á möguleika íbúa til að krefjast atkvæðagreiðslu um einstök mál sem veitir kjörnum yfirvöldum öflugt aðhald. Einnig var komið á fót Öldungaráði, Ráðgjafaráði í málefnum fólks með fötlun og Ungmennaráði og svo hefur einnig verið stofnað Fjölmenningarráð. Þessi ráð skipa veigamikinn sess í stjórnkerfi bæjarins og eiga að koma að gerð fjárhagsáætlunar á fyrstu stigum við gerð hennar. Því miður var samráðið við þau í mýflugumynd og það samráð sem þó átti sér stað kom of seint í ferlinu og var ekki nógu markvisst. Meirihlutinn lét svo undir höfuð leggjast að senda til umfjöllunar í Öldungaráði tillögur okkar jafnaðarfólks sem sneru að því. Sama gilti um Foreldraráð Hafnarfjarðar vegna tillögu Samfylkingarinnar um lækkun matarkostnaðar hjá nemendum. Hafði ekki áhuga á umsögnum þeirra. Ungmennaráð bæjarins sendi líka frá sér yfirlýsingu þar sem það lýsti yfir verulegum vonbrigðum með fjárhagsáætlunina. Þar er samráðsleysi meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks um að kenna.

Hlustum á raddir bæjarbúa

Fjárhagsáætlun er stefnuyfirlýsing þess meirihluta sem fer með stjórn bæjarins fyrir næsta ár og markar auk þess rammann til næstu þriggja ára þar á eftir. Í ljósi þess hversu mikilvæg fjárhagsáætlun er í starfi bæjarstjórnar þá er markvisst samráð grundvöllur góðrar fjárhagsáætlunar. Það var hins vegar ekki reyndin við gerð fjárhagsáætlunar Hafnarfjarðar þar sem vinnubrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks einkenndust miklu fremur af samráðsleysi. Á móti tölum við jafnaðarfólk fyrir auknu íbúalýðræði og virku samráði um stór mál sem smá og hlustum í raun á raddir bæjarbúa.

Árni Rúnar Þorvaldsson
bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2