fbpx
Þriðjudagur, júlí 16, 2024
HeimUmræðanBjart er yfir Betlehem

Bjart er yfir Betlehem

Jólahugvekja Margrétar Lilju Vilmundardóttur, prests í Fríkirkjunni

„Bjart er yfir Betlehem, blikar jólastjarna“

Þessi fallegu orð hafa hljómað alloft í kringum mig síðastliðnar vikur. Lagið könnumst við eflaust flest við enda hefð fyrir því að syngja það á aðventu og jólum. Laglínan alltaf sú sama, orðin þau sömu, sagan sú sama – en tilfinningin í aðdraganda þessara jóla var ekki sú sem ég er vön.

Það er ekki langt síðan ég var stödd í Palestínu, nánar tiltekið í Betlehem og ólíkt því sem ég hef margoft sungið í gegnum tíðina þá var alls ekki bjart yfir Betlehem. Reyndar var fátæktin, óhugnaðurinn, eymdin og þjáningin, sem venjulegt fólk býr við, áþreifanleg.

Til að komast inn í Betlehem þarf að fara í gegnum landamæravörslu þar sem þungvopnaðir hermenn standa vörð og passa upp á hverjir komast á milli borganna Jerúsalem í Ísrael og Betlehem í Palestínu, sem þó eru eins og tvö hverfi hlið við hlið. Hafnarfjörður og Garðabær. Nágrannar við hlið nágranna. Fyrir mig, sem fyrir algjöra tilviljun fæddist á Íslandi með öllum þeim forréttindum sem því fylgja, tók það ekki nema skamma stund að komast í gegnum óhugnalegt hlið 6 metra steypta veggjarins sem umlykur Palestínu. Fyrir fólk með palestínskt vegabréf getur það tekið margar klukkustundir, ef það þá fær fararleyfi yfir höfuð. Margt fólk sem býr í Betlehem starfar í Jerúsalem og neyðist því til að fara þarna í gegn daglega til að sjá fjölskyldunni farborða, eða ekki. Allt eftir því hvernig landamæravörslunni er háttað þá stundina.

Mér leið satt best að segja illa í Betlehem og var eiginlega þeirri stund fegnust þegar ég var komin þaðan aftur. Ég skammast mín fyrir að segja það. Þvílíkur forréttindapési. Það var ósýnilegur titringur í loftinu. Ókyrrð. Mér finnst erfitt að tala um þessa heimsókn. Upplifun mín af því að heimsækja þetta stórbrotna – „brotna“ land – var önnur en ég hafði búist við.

Nokkrum dögum seinna, daginn eftir að ég flaug heim í rigninguna, öryggið og friðinn hófst stríð í landinu helga.

„Bjart er yfir Betlehem“, syngjum við og bíðum fæðingu frelsarans. Litla Jesúbarnsins, sem af öllum stöðum, fæddist í Betlehem .

„Bjart er yfir Betlehem“, syngjum við á meðan við fylgjumst með því sem engin hugsun rúmar.

Hvað sem öðru líður koma heilög jól og jólin eru tími kærleika, ljóss og friðar. Jólin eru tíminn þar sem við minnumst fæðingu frelsarans – fæðingu vonarinnar. Jesús kom í heiminn og vonin með honum. Við þurfum á allri okkar von og öllum okkar mætti að halda til að takast á við verkefnin sem við stöndum frammi fyrir og það gerum við með því að standa saman sem manneskjur. Sameinuð sem manneskjur en ekki sundruð, því það sem sameinar sundraðan heim er mennskan sem við eigum öll sameiginlega.

Rétt fyrir utan gömlu Jerúsalem er kirkja sem heitir Dominus Flevit og gæti útlagst sem Guð grét á okkar ágæta tungumáli. Þessi fallega kirkja hefur hýst ólík trúarbrögð í gegnum aldirnar, kristna, gyðinga og múslima. Altaristaflan er gluggi sem vísar í átt að gömlu borginni í Jerúsalem og rammar inn kirkju, synagógu og moskvu. Kristna, gyðinga og múslima. Þrjú trúarbrögð sameinuð í einum ramma. Undir glugganum er uppáhaldsmyndin mín af Guði, sú mynd sem ég tengi hvað sterkast við og sýnir Guð sem hænu sem breiðir út vængi sína og umvefur unga sína með hlýju sinni og mildi. Litlir ólíkir ungar í öruggum faðmi móður sinnar – móður vor. Hversu falleg mynd er það?

Einhversstaðar heyrði ég sagt að við ættum ekki að lifa í skugga reynslu, heldur í ljósi reynslu. Látum reynsluna lýsa veginn fram á við í átt að öryggi og friði. Það er von því það besta sem Guð gaf er nýr dagur.

Megi góður Guð gefa ykkur friðar- og kærleiksjól.

Sr. Margrét Lilja Vilmundardóttir
prestur í Fríkirkjunni í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2