fbpx
Mánudagur, nóvember 25, 2024
target="_blank"
HeimFréttirHeimahöfn Þórunnar verður í Hafnarfirði

Heimahöfn Þórunnar verður í Hafnarfirði

Nýtt rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar var sjósett á Spáni

Þórunn Þórðardóttir er nafnið á nýja rannsóknaskipi Hafrannsóknastofnunar sem sjósett var 12. janúar sl. í borginni Vigo á Spáni. Var skipinu gefið nafnið með formlegum hætti við það tækifæri.

Nafnið fær skipið eftir fyrstu íslensku konunni sem var sérfræðimenntuð í hafrannsóknum og miklum frumkvöðli í rannsóknum á smáþörungum í hafinu við Ísland.

Áætlað er að nýja rannsóknarskipið verði afhent til Íslands í lok ársins en heimahöfn þess er Hafnarfjörður og hefur fengið einkennisstafina HF-300.

Skipið mun taka við af rannsóknarskipinu Bjarna Sæmundssyni sem fagnar í ár 54 aldursári sínu í þjónustu fyrir hafrannsóknir hér við land.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar t.v.

Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar segir að nýja rannsóknaskipið marki þáttaskil í hafrannsóknum hérlendis, hjá þjóð sem er eins háð sjávarútvegi og sjálfbærum veiðum og raun ber vitni.

„Það er með mikilli ánægju sem við nefnum nýja rannsóknarskipið Þórunni Þórðardóttur; í höfuðið á konu sem ól allan sinn starfsaldur hjá Hafrannsóknastofnun og áður hjá fyrirrennara stofnunarinnar (Atvinnudeild Háskóla Íslands, fiskideild) en eitt helsta afrek Þórunnar voru rannsóknir og mat á heildarfrumframleiðni svifþörunga á Íslandsmiðum enda eru svifþörungar undirstaða fæðukeðju hafsins. Framlag Þórunnar til vísinda er okkur öllum mikilvægt og því vel við hæfi að skipið beri nafn hennar í hafrannsóknum næstu kynslóða vísindafólks,“ segir Þorsteinn.

Tölvumynd af Þórunni Þórðardóttur HF-300

Þórunn Þórðardóttir – fyrst kvenna á sínu sviði

Þórunn Þórðardóttir

Þórunn var fyrst íslenskra kvenna til að verða sérfræðingur á sínu sviði í hafrannsóknum. Að loknu námi, 1956, kom Þórunn til starfa hjá Hafrannsóknastofnun sem þá hét Atvinnudeild Háskóla Íslands, fiskideild.

Hún vann við sitt sérsvið allan sinn starfsaldur hjá stofnuninni, lengst af sem deildarstjóri á þörungadeild. Þórunn tók virkan þátt í að efla starf Hafrannsóknastofnunar og ekki síður með því að laða til sín ungt og áhugasamt fólk sem hún hafði leiðbeint við nám um frumframleiðendur hafsins.

Þórunn var vandvirk í sínum rannsóknum og hafði mjög góða yfirsýn yfir fræðasviðið. Hún skildi líka betur en flest önnur þörfina á að efla þekkingu á undirstöðum lífsins í sjónum. Þórunn var virk í alþjóðlegu samstarfi og deildi þar sinni mikilvægu þekkingu.

Frumkvöðull í heildarfrumframleiðni svifþörunga

Eitt helsta afrek Þórunnar voru rannsóknir og mat á heildarfrumframleiðni svifþörunga á Íslandsmiðum enda eru svifþörungar undirstaða fæðukeðju hafsins.

Hún var jafnframt á meðal fyrstu sjávarlíffræðinga til að nota geislakolsaðferð til að meta framleiðni í sjónum.

Þórunn aðlagaði geislakolsaðferðina að íslenskum aðstæðum og enn í dag eru mælingar hennar í fullu gildi. Niðurstöður um ársframleiðni svifþörunga á hafsvæðinu birti hún í vísindagreinum ásamt upplýsingum um framvindu gróðurs á svæðinu.

Yngst 12 systkina

Þórunn fæddist í Reykjavík þann 15. maí 1925. Hún var yngst 12 barna þeirra Katrínar Pálsdóttur, húsfreyju og bæjarfulltrúa í Reykjavík og Þórðar Þórðarsonar bónda og síðar gestgjafa í Tryggvaskála á Selfossi.

Þórunn ólst upp í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá MR árið 1944. Hún stundaði nám í Lundi í Svíþjóð og síðar í Osló þaðan sem hún lauk námi árið 1955 með mag. scient. gráðu í jurtasvifi.

Þórunn var gift Norðmanninum Odd Didriksen og eignuðust þau 2 börn, Katrínu Didriksen gullsmið, skartgripahönnuð og kennara, og Einar Oddson, líffræðing og hljómlistarmann.

Þórunn hlaut heiðursviðurkenningu Lýðveldissjóðs Alþingis fyrir framlag sitt til rannsókna á hafinu við Ísland.

Þórunn lést 11. desember 2007.

Ljósmyndir: Hafrannsóknastofnun

 

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2