fbpx
Laugardagur, febrúar 22, 2025
HeimFréttirGríðarlegar öflugur hafnfirskur fróðleiksvefur um Reykjanesið

Gríðarlegar öflugur hafnfirskur fróðleiksvefur um Reykjanesið

Ómar Smári Ármannsson heldur úti fróðleiksvefnum ferlir.is

Vilji fólk fræðast um minjar og náttúrufar á Reykjanesskaganum, fornleifar, þjóðsögur, gönguleiðir og fl. þá er fróðleiksvefurinn www.ferlir.is frábær vettvangur til að skoða. Fróðleikurinn nær um allt landnám Ingólfs Arnarsonar en um 3.300 skipulegar vettvangsferðir liggja til grundvallar lýsingunum á vefsíðunni.

Hvað stendur FERLIR fyrir?

FERLIR stóð upphaflega fyrir FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Áhugasamt lögreglufólk um útivist og hreyfingu frá hversdagsins önn, krefjandi rannsóknum og jafnvel kyrrsetu þeirra á millum, tók sig saman árið 1999 og ákvað að líta í kringum sig – víkka sjóndeildarhringinn og kynnast betur sínu nærtækasta umhverfi; fyrrum landnámi Ingólfs.

Mynd af Ómari Smári í gönguferð
Ómar Smári í einni af sínum fjölmörgu ferðum sínum með FERLI

Upplifunina má m.a. sjá á vefsíðunni sem Ómar Smári Ármannsson, fyrrum lögreglumaður, fornleifafræðingur og leiðsögumaður setti upp árið 2000. Vegna tækninýjunga hefur síðan verið uppfærð í þrígang með tilheyrandi fyrirhöfn varðandi yfirfærslu texta, ljósmynda og uppdrátta í aðlögun að nýju viðmóti hverju sinni.

Ómar Smári Ármannsson með stafinn sinn heimatilbúna og Ferlishúfuna.

Nýtt efni daglega

Gríðarlegur fróðleikur hefur verið settur inn á vefsíðuna og er Ómar Smári óþreytandi að safna saman efni, vekja athygli á áður fyrirliggjandi heimildum, taka myndir og skrifa inn á síðuna. Vart líður sá dagur að ekki birtist nýtt efni inni á síðunni.

Vefurinn ferlir.is

Oft er efnið í takti við þjóðfélagsumræðuna og margt af nýja efninu núna er t.d. tengt jarðhræringunum við Grindavík en sjálfur ólst Ómar Smári upp í Grindavík og á sterkar taugar þangað. Meðal nýs efnis er „Yfirlit um jarðfræði Reykjanesskaga í ljósi nýjustu tíðinda“.

Skemmtileg tilgátumynd Ómars Smára sem sýnir Ássel við Hvaleyrarvatn.

Dýrmætur vefur

Ómar Smári Ármannsson

Ljóst er að sá fróðleikur sem Ómar Smári hefur tekið saman er gríðarlega verðmætur, bæði íbúum sveitarfélaganna á svæðinu og gestum þeirra, nemendum sem og öllum landsmönnum, ekki síst okkur Hafnfirðingum. Hvort það sé metið að verðleikum skal ósagt um en mikilvægt er að tryggja að fróðleikurinn sem þar er að finna glatist ekki heldur fái að vera aðgengilegur almenningi endurgjaldslaust, líkt og verið hefur.

Teikning Ómars af Þorbjarnarstöðum við Straumsvík

Öll vinna við vinnslu efnis hefur verið í sjálfboðavinnu. Við upphaflega gerð vefsins fékkst styrkur úr Rannsóknarsjóði Seðlabankans og við uppfærslu hans árið 2007 fékkst stuðningur góðra aðila að sögn Ómars og við uppfærslu í núverandi útgáfu fékkst styrkur úr Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar. Nokkrir aðilar styrkja rekstur vefsins en þó um óverulega upphæð hver.

Markmið og tilgangur vefsíðunnar, að sögn Ómars Smára, var, er og verður að miðla og varðveita fróðleik um minjar, sögu og einstaka náttúru  Skagans, áhugasömu fólki til gagns og ánægju.

Skoða vefinn ferlir.is

Teikning Ómars sem sýnir hvernig bæjarskipan var í Krýsuvík.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2