Keppnislið Listdansskóla Hafnarfjarðar, team LDH, keppti nýlega í undankeppni Dance World Cup í Borgarleikhúsinu og náði glæsilegum árangri. Liðið var með þrjú atriði og hreppti tvenn gullverðlaun, sérstök dómara verðlaun og silfurverðlaun.
Atriðið Beasts eftir Kötu Vignisdóttur, kennara og danshöfund team LDH eldri, var einnig stigahæsta atriðið af öllum minni hópunum í keppninni og hlaut næst flestu stigin af öllum 132 atriðunum sem að kepptu í undankeppninni.
Skólinn hefur tekið þátt í keppninni síðustu ár bæði hér heima, á Spáni og í Portúgal en árangurinn í ár er sá besti hingað til.
Liðið vann sér inn rétt til að fara til Prag í sumar á aðalkeppni Dance World Cup sem er eins konar heimsmeistaramót í dansi.
Yfirþjálfarar og danshöfundar liðsins Kata Vignis og Sigríður Diljá segja liðið aldrei hafa verið eins sterkt og í ár og eru spenntar að halda áfram að vinna með keppendunum.
“Við erum að sjá miklar bætingar hjá dönsurunum bæði sem einstaklingum og heild, síðan er alveg sérstaklega gaman að sjá hvað er mikil samstaða og metnaður er í liðinu í ár. Þetta er eitthvað sem við erum báðar búnar að vera að vinna að með þeim í að verða þrjú ár og frábært að sjá alla vinnuna vera að skila sér, við erum klárlega mjög stoltir kennarar“.
Góðar vinkonur
Sunna Rós Ólafsdóttir hefur verið partur af team LDH síðustu fimm árin og tekur undir það að liðið í ár sé það sterkasta hingað til.
„Ferlið er búið að vera svo skemmtilegt, krefjandi og gefandi. Við erum búnar að vera á fullt af æfingum og ég er svo stolt af okkur öllum og hvað við höfum náð langt. Það sem gerir team LDH sérstakt er klárlega hversu mikil heild við erum. Það er ekki gefið. Við erum allar svo góðar vinkonur, metnaðarfullar, vinnum vel saman og leggjum upp úr því að hafa jákvæða orku á æfingum. Næst á dagskrá er undirbúningur fyrir Prag þá eru það bara stífar æfingar, vinna í að keyra orkuna upp í 150% allan tímann, gera atriðið ennþá sterkara og muna að njóta líka,“ segir Sunna Rós.
Hægt er að fylgjast með liðinu áfram á miðlum skólans á Facebook og Instagram