Anna Björg og Kristján Þorsteinsbörn hafa rekið saman veitingastað í 19 ár. Þau stofnuðu veitingastaðinn Osushi the train sem upphaflega var að Lækjargötu 2A í Reykjavík árið 2005.
Í ágúst 2013 opnuðu þau svo glæsilegan veitingastað að Reykjavíkurvegi 60 og hafa rekið hann með góðum árangri alla tíð síðan.
Að sögn Þeirra systkina hefur reksturinn gengið vel og nóg að gera enda hafa þau haft tryggan hóp viðskiptavina. Þau hafa bæði boðið upp á að borða á staðnum en sífellt hefur verið að aukast að fólk taki með sér heim eða panti heimsendingu enda úrvalið mjög gott.
En nú er svo komið að leigusalinn hefur sagt upp leigunni og því þarf staðurinn að loka frá 1. júní.
„Við systkinin ætlum ekki að halda áfram en viljum gjarnan að einhver taki við færibandinu og reki veitingastaðinn einhvers staðar á svæðinu,“ segir Anna Björg í samtali við Fjarðarfréttir. Þau eru búin að vera saman í rekstri í 19 ár og þar af 11 ár í Hafnarfirði að sögn Önnu með tryggan hóp viðskiptavina.
Húsin rifin og 6 og 8 hæða hús reist í staðinn
Ástæðan er að rífa á húsið og byggja nýtt en þegar deiliskipulag var samþykkt í lok árs 2020 átti Hraunbyggð 88,5% húsnæðisins að Reykjavíkurvegi 60 og 79% í Reykjavíkurvegi 62 ásamt dótturfélaginu Rótinni. Var undirritað samkomulagi milli Hafnarfjarðarbæjar og Hraunbyggðar ehf. um þróun og uppbyggingu lóðanna Reykjavíkurvegar 60 og 62 og Hjallahrauns 2, 4, og 4a
Síðan þá hefur fyrirtæki í eigu Ólafs Páls Snorrasonar og fl. keypt Hraunbyggð ehf. sem sagt upp öllum leigusamningum. Meðal þeirra sem ekki hafa selt eru eigendur Músik og sport sem munu flytja tímabundið á meðan nýtt hús verður byggt.
Á lóðinni Reykjavíkurvegi 60 er gert ráð fyrir 6 hæða byggingu auk kjallara þar sem viðmiðið er 50 íbúðir á 2.600 m² en auk þess eru 2.550 m² skilgreindir sem breytilegt sem í flestum tilfellum skilgreinist í raun sem íbúðir. 850 m² eru svo skilgreindir undir verslun og þjónustu.
Á lóðinni Reykjavíkurvegi 62 er gert ráð fyrir 8 hæða byggingu auk kjallara þar sem viðmiðið er 60 íbúðir á 3.600 m² en auk þess eru 3.000 m² skilgreindir sem. 900 m² eru svo skilgreindir undir verslun og þjónustu.