Alþingiskosningar nálgast óðfluga og margir kjósendur gera nú upp hug sinn síðustu daga fyrir þær.
Það er persónulegt val hvers og eins að kjósa stjórnmálaflokk en líka mikilvæg ákvörðun sem skiptir máli fyrir okkur öll hin. Þegar við tökum ákvörðunina um hverjum við viljum gefa atkvæði okkar, þá skulum við því líka spyrja okkur um leið hvers konar samfélag við viljum byggja upp til framtíðar.
Eins og allir vita, kjósum við nú snemma í kjölfar hneyklismála ráðherra. Fjársterkir ráðamenn vildu forðast að borga sanngjarnan hlut til samfélagsins og reyndu að koma undan fjármunum sínum í aflandsfélög.
Þannig samfélag ójöfnuðar viljum við ekki. Við sýndum það í verki þegar við mótmæltum við Alþingishúsið 4. apríl síðastliðin. Það voru ein fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar og gáfu mjög skýr skilaboð um að hér eigi ekki að búa tvær þjóðir í einu landi. Að fólk vill skila sínu til samfélagsins og að við eigum öll að gera það.
Við viljum ekki heldur fjársvelt heilbrigðiskerfi þar sem starfsfólk býr við tvöfalt álag samanborið við sjúkrahús í nágrannaríkjunum. Við viljum ekki að öryrkjar og aldraðir fái ekki mannsæmandi framfærslu eða að lægstu laun dugi ekki til. Við viljum ekki samfélag þar sem hinir ríku verða miklu ríkari á meðan hinir efnaminni og ungu hafa stöðugt minna á milli handanna. Þar sem ójöfnuður vex.
Við viljum réttlátara samfélag. Þar sem allir hafa jafnan rétt til lífsgæða óháð fjárhag, stétt eða stöðu. Að allir fái bestu heilbrigðisþjónustuna og geta stundað nám við hæfi. Samfélag með sanngjörnu og réttlátu skattkerfi. Þar sem strákar og stelpur hafa jöfn tækifæri, þar sem kynbundið ofbeldi á ekki að líðast eða að konur fái lægri laun en karlar. Við viljum mannúðlegt samfélag sem býður fjölskyldur og börn á flótta undan stríði velkomið. Samfélag sem ber hag náttúrunnar fyrir brjósti í hvívetna og þar sem stigin eru alvöru skref til að draga úr loftslagsbreytingum.
VG er treystandi fyrir þeim verkefnum.
Við stöndum frammi fyrir einstöku tækifæri kæru kjósendur, segjum skilið við afturhaldssama og gamaldags hagsmunapólitík fortíðarinnar. Stígum saman skref til framtíðar.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
oddviti Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi.