fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimÁ döfinniTónleikar Gaflarakórsins - Vorboðinn ljúfi - fimmtudag kl. 20

Tónleikar Gaflarakórsins – Vorboðinn ljúfi – fimmtudag kl. 20

Frítt inn og bónuskór

Vortónleikar Gaflarakórsins, kórs eldri borgara, sem fagnar 30 ára afmæli, verða í Víðistaðakirkju fimmtudaginn 2. maí kl. 20.

Yfirskrift tónleikanna er Vorboðinn ljúfi og á efnisskránni eru meðal annars lög eins og Blíðasti blær, Nocturne, Káta Víkurmær og Í hjarta mér og Kvöldkyrrð auk fleira laga.

Með Gaflarakórnum munu spila í nokkrum lögum þeir Guðmundur Pálsson á bassa og Vigdís Jónsdóttir á harmóniku. Píanóleikari kórsins til fjölda ára er Arngerður María Árnadóttir.

Raust er gestakór á tónleikunum

Kórinn Raust

Raust er nýr sjálfstætt starfandi blandaður kór undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg. Hann var stofnaður haustið 2022 af hópi kórsöngvara sem flestir hafa margra ára reynslu af kórsöng og hafa tekið þátt í fjölda alþjóðlegra hátíða og keppna víða um Evrópu undanfarna tvo áratugi. Kórinn leggur áherslu á að flytja fjölbreytta og metnaðarfulla tónlist sem spannar allt frá klassík til nútíma tónsmíða frá öllum heimshornum.

Í lok tónleika munu kórarnir syngja saman nokkur lög

Bæjarbúar eru velkomnir á tónleikana í sumarbyrjun en aðgangur er ókeypis.

Félagar í Gaflarakórnum syngja með kórunum á kóramóti 2018

Upphaf kórsins

Upphaf kórsins má rekja til þess að Ragnhildur Guðmundsdóttir, formaður Félags eldri borgara stóð fyrir stofnun sönghóps innan félagsins á haustdögum 1994. Níu félagar voru í hópnum og fékk Ragnhildur Hörð Bragason til að æfa og stjórna þeim. Fljótlega bættust fleiri við og á aðalfundi 1996 hefur kórinn fengið nafn og heitir Gaflarakórinn.
Árið 1995 tók Guðrún Ásbjörnsdóttir við kórnum og stýrði hún honum þar til hún féll frá árið 2005. Þá um vorið hafði Kristjana Þórdís Ásgeirsdóttir komið til starfa með kórnum sem undirleikari og hafði m.a. annars farið í vorferð með kórnum til Vestmannaeyja og leikið undir með kórnum á kóramóti á Selfossi. Hún hefur stjórnað kórnum síðan þá.

Starfið í ár og framundan

Í byrjun starfsárs söng kórinn á 100 ára afmæli Hellisgerðis í úrhellisrigningu Tvisvar á ári fyrir jól og í maí syngur kórinn fyrir fólkið á Hrafnistu í Hafnarfirði, í Drafnarhúsi og á Sólvangi og Höfn og einnig í Ísafold í Garðabæ. Þá er einnig sungið við guðsþjónustur í kirkjum bæjarins.
16. júní mun kórinn Skunda á Þingvöll ásamt 3 öðrum kórum eldri borgara og syngja nokkur ættjarðarlög í tilefni 80 ára afmælis lýðveldisins og í byrjun júlí verður farið í skemmtiferð til Berlínar.

Kóramót

Á kóramóti á Akranesi í apríl

Á hverju ári síðan 1997 í Keflavík hefur kórinn tekið þátt í kóramóti fimm kóra af suðvesturhorninu. Þetta eru, Eldey í Reykjanesbæ, Gaflarakórinn úr Hafnarfirði, Hljómkórinn frá Akranesi, Hörpukórinn úr Árborg og Vorboðar úr Mosfellsbæ. Mótið er haldið á hverju vori og sér hver kór fimmta hvert ár um mótið. Var það haldið á Akranesi 20. apríl síðastliðinn.

Nýir félagar ávallt velkomnir

Félagar í kórnum eru 40 á aldrinum 68-94 og hafa margir verið í fjölda ára. Nýir félagar hafa bæst í hópinn á þessu starfsári og ber að fagna því. Elstur kórfélaga er Óskar Jónsson sem hefur verið með nær alveg frá byrjun og syngur enn eins og engill í tenórnum. Ragnheiður Sigurðardóttir er nokkurn vegin jafnaldra hans og hefur einnig sungið með nær frá upphafi.

Starfið hefst að nýju í fyrstu viku september. Æft er tvisvar í viku á mánudögum kl. 11-12 og á miðvikudögum kl. 16-18.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2