Á stofnfundi félags ungs framsóknarfólks í Suðvesturkjördæmi eða Kraganum var Kjartan Helgi Ólafsson úr Mosfellsbæ kjörinn formaður en félagið er nefnt „Ung Framsókn Kraginn“.
Kjartan er 25 ára starfsmaður dómsmálaráðuneytisins með BA í stjórnmálafræði og diplómu í opinberri stjórnsýslu við HÍ.
Stefán Atli Rúnarsson úr Kópavogi og Úlfar Darri Lúthersson úr Mosfellsbæ voru kjörnir varaformenn. Stefán Atli er 30 ára markaðsfulltrúi hjá Kletti – sölu og þjónustu, viðskiptafræðingur og fjölmiðlatæknir og Úlfar Darri er 24 ára háskólanemi með BA í tómstunda- og félagsmálafræði.
Urður Björg Gísladóttir úr Garðabæ var kjörin gjaldkeri. Urður Björg er 28 ára heyrnarfræðingur hjá Heyrns.
Auk þeirra voru eftirfarandi kjörnir í stjórn:
- Heiðdís Geirsdóttir úr Kópavogi, 30 ára sérfræðingur hjá Icelandair og félagsfræðingur,
- Embla Líf Hallsdóttir úr Mosfellsbæ, 23 ára markaðssérfræðingur og verkefnastjóri hjá auglýsingastofunni Ding Digital og háskólanemi,
- Kristín Hermannsdóttir úr Kópavogi, 25 ára sérfræðingur hjá Skattinum og viðskiptafræðingur.
Í tilkynningu frá félaginu segir að ný stjórn geti ekki beðið eftir að láta til sín taka í þessu fjölmennasta kjördæmi landsins. „Áhersla verður lögð á gott samstarf við flokkinn og samtalið við grasrótina verður virkt með það að leiðarljósi að efla þátttöku ungra. Framsóknarflokkurinn byggir á góðri sögu og við viljum halda áfram að skrifa hana, framtíðin ræðst á miðjunni!“
Það vekur athygli að stjórnarfólk kemur aðeins úr þremur af sex sveitarfélögunum sem mynda Kragann.