Hafnarfjarðarbær hefur gert samning við lóðarhafa á Hvaleyrarbraut 26-30 um að þar verði byggð blönduð byggð íbúða og húsnæðis undir þjónustustarfsemi.
Segir í samningunum að á undanförnum árum hafi Hafnarfjarðarbæ borist fyrirspurnir frá lóðarleiguhöfum við Hvaleyrarbraut 26-30 um hvort mögulegt sé að breyta nýtingu lóðanna og byggja á þeim blandaða byggð íbúða og þjónustustarfsemi.
Bæjarstjórn samþykkti samningana á fundi sínum 19. júní sl.
Breyting nær til Hvaleyrarbrautar 20-32
Þessu til samræmis ákvað Hafnarfjarðarbær að breyta aðalskipulagi bæjarins 2013-2025 og var breytingin samþykkt í bæjarstjórn 31. ágúst 2022 og af Skipulagsstofnun 13. janúar 2023. Í greinargerð með breytingunni segir að hún nái til landsvæðis lóðanna Hvaleyrarbrautar 20-32.
Er tekið fram að með breytingunni víki iðnaðarbyggingar fyrir breyttri starfsemi með auknu þjónustustigi á lóðum í samráði við lóðarhafa, en á svæðinu verði miðsvæðisstarfsemi með áherslu á verslun og þjónustu og heimild fyrir íbúðir á efri hæðum.
Breyta þarf gildandi deiliskipulagi en alls hefur gildandi deiliskipulagi þegar verið breytt 49 sinnum!
Lóðarhafar
Lóðarhafar á Hvaleyrarbraut 26 er Fjarðarmót ehf. þar sem stærsti eigandinn er Hjálmar Hafsteinsson með 17,7% hlut og Benedikt Steingrímsson, Óttar Arnaldsson og fl. með 15% hlut hver.
Lóðarhafar á Hvaleyrarbraut 28 og 30 eru Verkfræðiþjónusta Jóhanns G. Bergþórssonar ehf. og Hagtak ehf. sem er til helminga í eigu fyrrgreindrar verkfræðiþjónustu og Jóhanns G. Bergþórssonar. Verkfræðiþjónustan er í eigu Jóhanns og fjölskyldu.
Hvaleyrarbraut 26
Umfang uppbyggingar á lóðinni Hvaleyrarbraut 26 skal miðast við að á lóðinni verði fjölbýlishús með að hámarki 45 íbúðum auk húsnæðis undir verslunar- og þjónustustarfsemi. Gert er ráð fyrir að byggingarmagn á lóðinni samkvæmt deiliskipulagi verði 4.820 fermetrar íbúðarhúsnæði, 330 fermetrar atvinnuhúsnæði, 2.250 fermetrar bílakjallari og 270 fermetrar geymslur. Gert er ráð fyrir 66 bílastæðum í kjallara og 23 bílastæðum ofanjarðar.
Hvaleyrarbraut 28 og 30
Umfang uppbyggingar á lóðinni Hvaleyrarbraut 28 miðast við að á lóðinni verði byggt fjölbýlishús með að hámarki 41 íbúð auk húsnæðis undir verslunar- og þjónustustarfsemi. Er þar með tekið tillit til þess að þeir fermetrar er ætlaðir voru til gerðar gangstígs í gegnum svæðið falli undir lóð nr. 28. Gert er ráð fyrir að byggingarmagn á lóðinni samkvæmt deiliskipulagi verði 4.390 fermetrar íbúðarhúsnæði, 330 fermetrar atvinnuhúsnæði, 2.040 fermetrar bílakjallari og 270 fermetrar geymslur. Gert er ráð fyrir 64 bílastæðum í kjallara og 23 bílastæðum ofanjarðar.
Umfang uppbyggingar á lóðinni Hvaleyrarbraut 30 miðast við að á lóðinni verði byggt fjölbýlishús með að hámarki 58 íbúðum auk húsnæðis undir verslunar- og þjónustustarfsemi. Gert er ráð fyrir að byggingarmagn á lóðinni samkvæmt deiliskipulagi verði 7.000 fermetrar íbúðarhúsnæði, 545 fermetrar atvinnuhúsnæði, 2.900 fermetrar bílakjallari og 408 fermetrar geymslur. Gert er ráð fyrir 70 bílastæðum í kjallara og 28 bílastæðum ofanjarðar.
Hámark 3 hæðir frá götuhæð Hvaleyrarbrautar
Gert er ráð fyrir að húsin verð að hámarki 3 hæðir frá götuhæð Hvaleyrarbrautar en að jarðhæð sem snýr að Lónsbraut verði með um 4 metra lofthæð. Hámarks nýtingarhlutfall á lóðunum er 1,6 skv. tillögunum en er skv. gildandi deiliskipulagi 0,4 á nr. 26 go 1,6 á nr. 28 og 30.
Þó er í tillögum arkitekta gert ráð fyrir allt að 6 hæðum sem væru þá skv. teikningum um 4,5 hæð yfir Hvaleyrarbraut.