Íshestar sem hafa Kjóadal á leigu sem beitarhólf hafa, eins og hér hefur verið greint frá, flutt óhemju mikið af hrossaskít í Kjóadal sem safnast hefur upp nyrst í dalnum.
Í svari Ishmaels R. David, verkefnastjóra á umhverfis- og skipulagssviði Hafnarfjarðarbæjar, við fyrirspurn Fjarðarfrétta fyrir skömmu, sagði hann að hann hafi gefið leyfi til að keyra úr stíunum sínum þangað uppeftir til dreifingar. Bleyta hafi hamlað að hægt hafi verið að dreifa.
Nú er hins vegar búið að dreifa úr skítnum en ekki með áburðardreifara, heldur með traktorsgröfu sem einfaldlega jafnaði úr skítahrúgunum á frekar lítið svæði.
Í samtali við Fjarðarfréttir sagði búfræðingur að svona dreifing væri í raun mengun fremur en áburðargjöf þegar svona þykkt lag er látið liggja á túninu.
Útivistarsvæði samkvæmt skipulagi
Kjóadalur er útisvistarsvæði samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar og hefur Skátafélagið Hraunbúar t.d. óskað eftir að fá svæðið til að gera þar tjaldsvæði fyrir Hafnarfjarðarbæ og möguleika á að halda þar skátamót.
Ekki hafa verið samþykkt nein áform um nýtingu Kjóadals í framtíðinni.
Er Kjóadalur áfram notaður sem urðunarstaður fyrir hrossaskít?