Það sprautaðist snjór út í myrkið á Víðistaðatúni sl. mánudagskvöld þar sem þeir Sveinbjörn Sigurðsson og Sigurður Ísleifsson höfðu komið fyrir nýrri snjóbyssu til að framleiða snjó á túninu.
Markmiðið er að búa til snjó sem nota megi við æfingar á gönguskíðum.
Æfintýrið hófs í raun fyrir nokkuð löngu er Sveinbjörn kom með þá hugmynd að sniðugt væri að kaupa litlar snjóbyssur sem nota mætti til að búa til snjó fyrir gönguskíðaæfingar og nota mætti til að búa til snjó í jólaþorpið.

Vel var tekið í hugmyndina en endanleg ákvörðun og kaup drógust á langinn en úr varð að Hafnarfjarðarbær keypti tvær byssur frá sænska fyrirtækinu 3graderkallt. Byssurnar eru einfaldar í meðförum en þarf að tengja við háþrýstidælu og loftpressu og duga dælur sem notaðar eru til heimabrúks.

Það blés nokkuð kröfuglega á mánudagskvöld og snjórinn dreifðist nokkuð víða og voru þeir félagar nokkð ánægðir með árangurinn þó hann myndi teljast lítill í samanburði við alvöru snjóbyssur á skíðasvæðunum.

Stefna þeir félagar að koma byssum fyrir í brekkunni við kirkjuna en þurfa að útvega aðra háþrýstidælu og loftpressu en slíkar fylgdu ekki með í kaupunum.
