Margan skógræktarmanninn dreymir að einhvern tímann verði hægt að saga trén niður og nota í parket á gólf. Engan dreymir hins vegar um að fá parket sem hætt er að nota aftur í skóginn.
Einhver umhverfissóðinn tók sig hins vegar til og fór með töluvert magn af gömlu parketi sem tekið hafði verið upp og henti því rétt út fyrir veg á skógræktarsvæði skammt frá Hvaleyrarvatni. Það voru starfsmenn Skógræktarfélags Hafnarfjarðar sem urðu varir við sóðaskapinn og starfsmenn Hafnarfjarðar brugðust hratt við og fjarlægðu parketið og komu því í endurvinnslustöð.

Siðblindan hlýtur að vera mikil hjá fólki sem lætur sér detta í hug að henda slíku rusli úti í náttúrunni. Þó er allt of mikið af því og hefur fólk hent bílhræjum, þvottavélum, húsgögnum og garðaúrgangi víðs vegar um bæjarlandið. Jafnvel áhugasamir plöntuframleiðendur henda úrgangi úti í náttúrinni eftir að plönturnar hafa verið nýttar til ólöglegrar framleiðslu á fíkniefnum.
Tilkynnið lögreglu
Allir þeir sem verða varir við fólk sem hendir rusli úti í náttúrinni eru hvattir til að tilkynna það lögreglu umsvifalaust.