fbpx
Miðvikudagur, janúar 1, 2025
HeimUmræðanBeina brautin

Beina brautin

Ólafur Elínarson skrifar

Það getur verið krassandi, og er líklega tilgangurinn, að halda fram að grunnurinn að áratugastarfi íslensks fyrirtækis sem sprottið er úr Háskóla Íslands sé rangur eins og Ómar Smári Ármannsson gerir nú endurtekið og án frekari útskýringa. Eins að segja að Carbfix sé að votta sig sjálft.  En líkt og ítrekað hefur verið bent á þá er það ekki svo og er sett fram hér á ný vegna ítrekaðra rangfærslna Ómars Smára.  

Vísindaleg sönnun 2016 

Carbfix aðferðin var vísindalega staðfest árið 2016 þegar rannsóknir unnar af fræðafólki frá Háskóla Íslands og erlendum samstarfsaðilum, voru birtar í Science – einu virtasta vísindatímariti heims. Greinin sýndi fram á hraða og varanlega bindingu CO₂ í basalti, sem opnaði nýjar leiðir í kolefnisbindingu, í raun byltingu á því hvað var hægt fram til þess tíma. Um leið staðsetti aðferðin Ísland í forystu varanlegra og sannaðra loftslagslausna. Greinina er hægt að nálgast hér. Myndband til útskýringar, sem sýnir hvernig CO₂ myndar steindir, má sjá hér. 

Vottun óháðra aðila 

Carbfix aðferðin hefur ekki einungis verið vísindalega sönnuð í einu virtasta vísindatímariti heims. Óháður vottunaraðili, Det Norske Veritas, hefur gert úttekt á starfsemi Carbfix og árangri hennar til kolefnisbindingar og vottað hana gagnvart staðli Puro.earth. BeZero, sem metur trúverðugleika kolefniseininga. Þessi óháði vottunaraðili gaf Carbfix hæstu einkunn sem BeZero hefur nokkurn tímann gefið.
Hér má til dæmis nálgast vottaða aðferðafræði Carbfix við niðurdælingu á CO₂ vegna Orca verkefnisins á Hellisheiði. 

Hér má nálgast upplýsingar um kolefniseiningar vottaðar af puro.earth vegna Mammoth verkefnisins á Hellisheiði. 

Þess má einnig geta að aðferðir Carbfix eru hluti af aðgerðum Íslands í loftslagsmálum, binding kolefnis í berglög er hluti af Landsskipulagsstefnu ríkisins sem felur í sér samræmda stefnu í skipulagsmálum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (IPCC) telja föngun gróðurhúsalofttegunda og bindingu þeirra nauðsynlegar sem hluta af aðgerðum gegn hamfarahlýnun. Svo er staðfestur árangur síðasta áratugar augljós við Hellisheiðarvirkjun þar sem CO2 og brennnisteinsvetni hefur verið fjarlægt og bundið áður en það sleppur í andrúmsloftið. Þangað eru öll velkomin í heimsókn þar sem sérfræðingar okkar taka á móti fólki og fræða um Carbfix aðferðina og annað sem gerist á Hellisheiðinni.  

Ljóst er að það eru skiptar skoðanir á Coda Terminal verkefninu og þá sérstaklega út frá staðsetningu þess og umfangi. Og við hjá Carbfix skiljum það. En það er mikilvægt að halda umræðunni málefnalegri og á beinu brautinni þegar kemur að Carbfix aðferðinni sem hefur verið kyrfilega rannsökuð og beitt í yfir 10 ár og bundið um 100.000 tonn af CO2 og yfir 50.000 tonn af brennisteinsvetni varanlega og örugglega í bergi. 

Það verður síðan í höndum Hafnfirðinga að ákveða framhaldið um Coda Terminal verkefnið í Straumsvík ef skilyrðum bæjarstjórnar verður uppfyllt. 

Ólafur Elínarson,
samskiptastjóri Carbfix

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2