Alls sátu 100 foreldrar PMTO-foreldrafærninámskeið hjá Hafnarfjarðarbæ í fyrra. Það kemur fram á vef Hafnarfjarðarbæjar
Kolbrún Sigþórsdóttir, verkefnastjóri í PMTO-foreldrafærni hjá bænum segir að foreldrunum séu rétt verkfæri og kennt að nota þau svo að árangurinn verði sem bestur.
Foreldrarnir fá kennslu og eru þjálfaðir í styðjandi leiðum í uppeldishlutverki sínu, en PMTO-stendur fyrir Parent Management Training – Oregon. „Oregon er það fylki í Bandaríkjunum sem Ísland er í samskiptum við,“ segir Kolbrún.
Fjögur hefðbundin PMTO-námskeið eru kennd á ári. Eitt þeirra, það þriðja á þessu skólaári, hefst í næstu viku og er það kennt einu sinni í viku í 2 klukkustundir í senn í átta vikur.
„Það er fullbókað en foreldrar geta óskað eftir að komast á námskeið í gegnum skóla barnsins. Mjög vel hefur gengið að halda námskeiðin og því er biðin eftir því að komast að stutt sem engin um þessar mundir,“ segir Kolbrún.
Segir hún þessi námskeið vera góð fyrir alla foreldra. Mikil áhersla sé á að kenna og þjálfa góða færni í samskiptum sem virki ekki aðeins á heimilinu heldur alls staðar að sögn Kolbrúnar.
Foreldrum hefur verið leiðbeint frá aldamótum
PMTO-foreldrafærni hefur verið nýtt og kennd í Hafnarfjarðarbæ allt frá aldamótaárinu. Kolbrún segir aðferðina þaulrannsakaða, hún sé stöðugt í þróun og PMTO-kennarar þurfi að viðhalda þekkingu sinni svo þeir fái að kenna.
„Regluleg og þétt handleiðsla fyrir PMTO-kennara styður við fagleg vinnubrögð og tryggir góða kennslu og þjálfun til handa foreldrum,“ segir hún og að ekki sé aðeins kennd hefðbundin PMTO-námskeið í Hafnarfirði, heldur eru einnig eitt til tvö PTC-námskeið haldin (Parenting through Change) sem séu bæði lengri og ítarlegri.
„Þá fylgja kennarar foreldrum eftir til að styðja þá og hvetja þá áfram að nýta verkfærin,“ segir hún. Þá sé einnig boðið upp á einstaklings PMTO-námskeið.
„Við fáum þá til okkar foreldra og jafnvel afa eða ömmu – þau sem standa börnunum næst, og kennum í klukkustund í senn. Skiptin geta verið 14-25, allt eftir því hvernig gengur,“ segir hún og nefnir að í PMTO-verkfærakistu allra þessara námskeiða séu eftirfarandi verkfæri:
- Fyrirmæli
- Hvatning
- Tilfinningastjórn
- Að setja mörk
- Lausn vanda
- Eftirlit og tengsl við skóla
Kolbrún segir þjálfunina í raun vera að kenna foreldrum að halda utan um uppeldi barna sinna. Hafa eftirlit með þeim, kenna þeim að taka niður upplýsingar sem skipta máli. Kenna þeim að spyrja réttu spurninganna, til dæmis á foreldrafundum og sýna börnunum uppbyggilegan áhuga.
„Já, vera forvitin um hvað barnið er að gera. Setjast niður með barninu. Veita því athygli, sýna því sem barnið er að gera áhuga og ná fram samtali.“
Foreldrar 4-12 ára barna geta sótt PMTO
Kolbrún segir að í PMTO sé alltaf lögð áhersla á hvatningu og að fókusa á jákvæða hegðun. Foreldrar þjálfist í að sjá jákvæða hegðun, orða hana, hrósa og hvetja til að auka líkur á að hún komi oftar fram hjá barninu. Það sé alltaf útgagnspunkturinn.
Hún segir alla foreldra 4-12 ára barna í Hafnarfirði geta sóst eftir PMTO-þjálfun. „Þetta er frábær þjálfun sem leggur áherslu á jákvæð samskipti foreldra við barnið sitt.“
Foreldrarnir fái að segja álit sitt á PMTO-námskeiðunum í lokin. „Þetta eru frábærar niðurstöður. Allir sjá einhvern mun og foreldrar segja: Vá, við foreldrarnir erum svo miklu meira í takt,“ segir Kolbrún og að foreldrar tjái sig um að þeir séu öruggari í viðbrögðum sínum við hegðun barnanna. Þeir segi að það sé komin meiri ró og rútína inn í heimilislífið.