Í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir árið 2025 er sett fram metnaðarfull áætlun sem miðar meðal annars að því að styrkja ungt fólk, menntun þess og áhugamál.
Í tillögum fræðsluráðs fyrir komandi ár er lögð áhersla á að styrkja unga fólkið okkar enn frekar með fjölbreyttu skólastarfi, stoðþjónustu og öflugu forvarnarstarfi. Á árinu 2025 mun hefjast vinna við undirbúning fjölskyldumiðstöðvar fyrir flótta- og hælisleitendur. Markmiðið með fjölskyldumiðstöð er fyrst og fremst að undirbúa börnin fyrir leik- og grunnskólagöngu sína í hefðbundnum skólum. Miðstöðin mun styðja við fjölskyldur á einum og sama stað og undirbúa þau fyrir það að taka þátt í samfélaginu, veita fræðslu og almennan stuðning og jafna álag á skóla- og velferðarkerfið.
Töluverðar breytingar hafa átt sér stað í hafnfirsku leikskólastarfi að undanförnu. Helst má nefna möguleika til að breyta vistunartíma barna og lækka þannig vistunarkostnað verulega. Þessi breyting hefur mælst vel fyrir og vonir standa til að enn fleiri foreldrar nýti sér þessa lækkun með því að aðlaga vistunartíma barna sinna. Það er jákvætt hversu vel hefur gengið að manna leikskólana okkar. Markmið okkar um að taka inn 15 mánaða gömul börn að hausti náðist, markmið sem mörg sveitarfélög reyna við en ekki öll ná. Fleiri leikskólar bætast við á næstu árum í stækkandi bæjarfélagi. Nýr leikskóli, Áshamrar í Hamranesi, verður tekinn í notkun á árinu og jafnframt hefst vinna við nýjan leik-og grunnskóla, Hamranesskóla.
Fjárfestum í ungu fólki
Ungt fólk hefur kallað eftir þjónustu sem tekur mið af fjölbreyttum áhugamálum og þörfum þeirra. Á síðasta ári var gerð breyting á þjónustu við ungt fólk til að koma til móts við nýja tíma. Undirbúningur er hafinn að opnun tveggja starfsstöðva fyrir félagsstarf ungs fólks, annars vegar á Selhellu og í nýsköpunarsetri við Menntasetrið við Lækinn þar sem aðgengi verður að tækjum og aðstöðu til skapandi vinnu undir faglegri leiðsögn. Markmiðið er að búa til fjölbreytt og skapandi frístundastarf sem hentar ólíkum þörfum ungs fólks, skapa tækifæri og auka aðgengi allra hópa að frístundastarfi. Sérstök atvinnu- og virknideild verður sett á laggirnar sem styður ungt fólk út á vinnumarkaðinn eða í námi. Á nýju ári verður ungu fólki boðið uppá námskeið meðal annars í fjármálalæsi og sjálfsstyrkingu ásamt því að kallað verður eftir fleiri hugmyndum sem styrkir ungt fólk í sínu daglega lífi.
Hafnarfjörður er það sveitarfélag sem segja má að hafi á undanförnum árum fjárfest hvað mest í ungu fólki með nýjum íþróttamannvirkjum. Samþykkt var á árinu að hefja vinnu við undirbúning að nýjum íþróttaklasa í Hamranesi, sameiginlegu íþróttasvæði fyrir fjölbreyttar íþróttagreinar og tryggja þannig enn betri aðstöðu fyrir hafnfirsk íþróttafélög. Forvarnargildi íþróttaiðkunar er mikil og á sama tíma þarf að skapa aukin tækifæri til listsköpunar. Þar liggja tækifæri sem spennandi verður að vinna með íbúum á komandi ári.
Ég óska öllum farsældar á nýju ári og hlakka til að eiga góð og gagnleg samtöl við bæjarbúa eins og ég hef gert á undanförnum árum.
Saman gerum við gott bæjarfélag enn betra!
Kristín Thoroddsen,
formaður fræðsluráðs og bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Hafnarfirði