Sumir hafa áhuga á að lesa söguna – aðrir hafa áhuga á að reyna að skilja hana.
Hvers vegna leyfir t.d. Hafnarfjarðarbær, árið 2025, háspennumöstur gnæfandi yfir íbúðar- og iðnaðarbyggð Vallahverfisins með tilheyrandi ónæði fyrir íbúana í austanvindrokum ásamt öðrum takmörkunum á notagildi möguleika fyrir atvinnurekstur á svæðinu í stað þess að krefjast þess að háspennulínan innanbæjar verði grafin í jörð?
Hvers vegna hafa bæjaryfirvöld í Hafnarfirði ekki haft meiri vilja til að planta trjám og öðrum annars uppvaxandi framtíðargróðri við annars steinvæddar aðalleiðir úthverfanna sem og á auðum svæðum innan þeirra? Áhersla virðist fyrst og fremst hafa verið beint að miðbænum með tilheyrandi þríhliða hjartakostnaði.
Hvers vegna eru fulltrúar Hafnarfjarðar svo lítt meðvitaðir um þær náttúruperlur, sem bæjarlandið hefur upp á að bjóða? Viðhorf þeirra hefur hingað til ekki lýst sér í varðveislu landsins heldur verið þess meiri á eyðileggingu fornminja, sbr. eyðingu fjárskjólsins í Dalnum, sem auðveldlega hefði verið hægt að afstýra og varðveita til lengri framtíðar.
Hvers vegna þurfti að eyðileggja tóftir brennisteinsvinnslunnar undir Baðstofu í Krýsuvík frá því á 18. öld? Bæjaryfirvöld höfðu hugsunarlaust gefið HS-orku leyfi til framkvæmda á svæðinu, án kröfu um fyrirliggjandi fornleifaskráningu. Því fór sem fór. Einar elstu minjar um brennisteinsvinnslu hér á landi fóru þar forgörðum vegna fáfræði fulltrúa bæjarins, þrátt fyrir áður skráða vitneskju þar um.
Hvers vegna datt bæjaryfirvöldum að gera sáttmála við Carbfix um niðurdælingu spillingarefna nánast undir íbúðarbyggð bæjarins? Sennilegasta skýringin er væntanlega sú að fulltrúar bæjarins telji úthverfi hans varla hluti bæjarstæðisins. Vitað er að nefnd niðurdæling mun hafa óþægilegar afleiðingar, bæði á nálæga íbúa sem og umhverfið allt. Framkvæmdin felur í sér óhemjumikla dreifandi vatnsnotkun, sem mun skila sér út í nærliggjandi umhverfið – fyrr en síðar. Vatnið hefur jú jafnan tilhneigingu til að falla að ósum.
Ómar Smári Ármannsson,
fornleifafræðingur, fv. aðstoðaryfirlögregluþjónn og íbúi á Völlum