Kennarar í Hafnarfirði boða til kröfugöngu á miðvikudaginn klukkan 15.30.
Yfirskrift göngunnar er Útför kennarastarfsins.
„Kennarar hafa áhyggur af framtíð kennarastarfsins og því að fagmennska í skólastarfi verði ekki lengur til staðar með miklum afleiðingum fyrir samfélagið. Sífellt erfiðara er að fá menntaða kennara til starfa meðan laun eru undir meðallaunum í landinu og langt undir launum sambærilegra hópa.
Mikilvægt er að gengið verði til samninga við kennara nú þegar svo afstýra megi óafturkræfum skaða á menntakerfinu,“ segir í tilkynningu.
Gengið verður fylktu liði frá Hafnarfjarðarkirkju á fund bæjarstjórnar sem fundar á þessum tíma og verður bæjarfulltrúum afhent áskorun frá kennurum í sveitarfélaginu.