Nemendur í frönskuvali í Setbergsskóla fengu að upplifa ævintýri í skólastarfinu.
Með áhugasaman kennara sem kom því til leiðar að þau héldu til Frakklands til jafnaldra sinna, fengu nemendur í frönsku vali að upplifa æfingtýri og heimsækja nemendur í Frakklandi, sem endurgoldu heimsóknina svo nýlega.
Kennarinn, Sigrún Erna Geirsdóttir spjallaði við blaðamann Fjarðarfrétta um ævintýrið:

„Ég fékk þessa hugmynd fyrir ári síðan að gera Erasamus+ verkefni og hafði samband við Erasamus skrifstofuna hér og þau könnuðu áhugann hjá frönskum skólum og það varð úr að þessi skóli í Nantes varð fyrir valinu. Þá fórum við að ræða saman, við og franski skólinn, um það hverjar okkar hugmyndir væri um verkefnið, hvað við vildum gera og ég og samkennari minn, Sigga Sól, gerðum svo umsókn sem við fengum samþykkta. Verkefnið gengur út á að ég fer út með krakkana sem ég er að kenna frönsku, til Frakklands, en franska er valfag í Víðistaðaskóla, einn tími í viku. Ég vildi að þau fengju að kynnast franskri menningu og að upplifa Frakkland. Frakkarnir höfðu hins vegar mjög mikinn áhuga á jarðfræði Íslands og við sameinuðum þetta þannig að þema verkefnisins varð menning, tungumál og jarðfræði. Við sóttum um í óformlega hluta Erasmus+ en venjulega sækja skólar um í formlega hlutann þar sem unnin eru verkefni sem þarf að skila og fl. en óformlegi hlutinn byggist á félagslegum tengslum, þú lærir að kynnast öðru fólki, efir félagsleg tengsl, styrkir sjálfstraustið og að upplifa aðra hluti.“
Fóru 15 nemendur ásamt kennurum til Frakklands 28. febrúar og voru þar í viku og krakkarnir gistu þá inni á frönskum heimilum hjá nemendunum í skólanum í Nantes. Frönsku krakkarnir voru einnig 15 ára og þátttakendurnir voru allir á aldrinum 13-15 ára.
Íslensku krökkunum var hverjum úthlutað frönskum félaga sem byrjuðu að spjalla saman með Snapchat og Instagram áður en þeir fóru út og skiptust þau á upplýsingum um hvort annað og hvað þeim þætti gaman að gera og svoleiðis. Samskiptin fóru þó fram á ensku því íslensku krakkarnir voru komnir mjög stutt í frönsku og frönsku krakkarnir sem tóku þátt í verkefninu voru valdir með tilliti til enskukunnáttu.
„En það sem þau sáu fyrir sér áður en þau fóru út sem virkilega krefjandi verkefni var það að gista inn á frönskum heimilum. Íslenski nemendur hafa mjög litla reynslu af þessu og það eru í raun mjög fáir skólar sem stunda nemendaskipti svo þetta var ofboðslega krefjandi verkefni. En svo var það frábæra að þetta ver miklu léttara en þau höfðu gert sér grein fyrir. Við hentum þeim algjörlega í djúpu laugina, því við komum til Frakklands á föstudegi og fóru til foreldranna og voru þar helgina án þess að við sæjum eða heyrðum til þeirra. Svo á mánudeginum þá sögðu krakkarnir að þetta hefði verið mjög gaman og það var gríðarlegur léttir fyrir okkur kennarana.
Frakkarnir fóru með okkur út um allt, skoðuðum kastala, ótrúlega fallegan stað sem heitir Le Mont Saint Michel, við fórum í vísindaskemmtigarð. Þetta var rosalega flott og þétt pökkuð dagskrá, þetta var svo gaman og krakkarnir náðu svo vel saman. Enda fór svo að nokkrir táruðust þegar þeir voru að fara.“
En það voru bara þrjár vikur þar til krakkarnir hittust á ný á Íslandi. Komu Frakkarnir til Íslands sl. þriðjudag og var búið að undirbúa glæsilega dagskrá fyrir þá. Eru þeir búnir að fara Reykjaneshringinn, Gullna hringinn, heimsækja Kaplakrika, fara í ratleiki í Reykjavík og fl. Segir Sigrún það líka reynslu fyrir frönsku nemendurna að koma á íslensk heimili, þau séu t.d. ekki vön að fara úr skónum þegar komið er inn á heimili. Segir hún að það sé svo mikilvægt í dag þegar við erum með allar þessar krísur að krakkarnir upplifi það að fara til annars lands og upplifa að þar sé svo mikið af flottu og góðu fólki og yfirvinna fordóma. Þess vegna sé svo mikilvægt að svona Erasmus verkefni á vegum Evrópusambandsins sé í gangi en sambandið hefur aukið framlög til Erasmus+ vegna þess að þar séu svo miklar blikur á lofti í Evrópu.
Þegar blaðamaður Fjarðarfrétta leit við í Víðistaðaskóla voru frönsk nemendurnir í tíma þar sem var verið að fræða þá um Ísland.
Blanche og Louis mjög ánægð með samskiptin
Tveir nemendur þau Blanche og Louis frá Nantes voru greinilega ánægðir með samskiptin. Aðspurð sögðust þau ekki skilja íslensku en sögðust þó skilja nokkur orð.

Voru þau spurð um upplifunina af heimsókn íslensku krakkanna: „Það var mjög gaman, margt að gera. Þau voru eflaust svolítið stressuð í byrjun en við sögðum þeim frá Frakklandi og franskri menningu og þau voru fljót að aðlagast.“ Aðspurð hvort þau hafi getað átt samskipti á frönsku sögðu þau að það hafi eiginlega ekki tekist enda íslensku krakkarnir á fyrsta ári í frönsku.
Þegar þau voru spurð hvort þau hafi eignast góða vini, stóð ekki á svarinu, „já, svo sannarlega,“ svöruðu þau skælbrosandi. „Þau eru öll mjög vingjarnleg og skemmtileg“. „Það að heimsækja og kynnast Íslandi gerir mig opnari fyrir annarri menningu,“ sagði Louis og sagði menninguna öðruvísi og áhugavert að kynnast menntakerfinu. Þá sagði hann að enskan hans hafi batnað mikið í samstarfinu við Íslendingana. Bætti Blance við að þau töluðu einungis ensku í enskutímum í Frakklandi og því gott að fá tækifæri til að tala ensku hér.
Spurð hvort þau ætli að halda tengslum við íslensku krakkana svöruðu þau bæði játandi og sögðust ætla að reyna að halda samskiptum m.a. á samfélagsmiðlum.