Laugardagur, apríl 12, 2025
HeimFréttirSamfélagsgarðar - Ræktum betri bæ

Samfélagsgarðar – Ræktum betri bæ

Viðreisn leggur til nýja framtíðarsýn fyrir græn svæði bæjarins

Það vita allir sem reynt hafa, að garðrækt getur veitt mikla ánægju.

Hún sameinar líkamlega hreyfingu, tengingu við náttúruna, gleði sem felst í að sjá plöntur vaxa og dafna fyrir eigin tilverknað og hún veitir dýrmæta ró í amstri dagsins. Í samfélagi sem sífellt verður borgarvæddara og þéttara hefur þörfin fyrir græn svæði aldrei verið meiri. Samfélagsgarðar (eða grenndargarðar) er frábær lausn til að sameina náttúru, sjálfbærni og félagslega virkni á einum stað.

Fulltrúi Viðreisnar í skipulags- og byggingarráði hefur lagt fram tillögu sem getur tryggt aðgang allra að skjólsælum reitum til ræktunar. Tillagan felur í sér, í fyrsta lagi að umgjörð matjurtagarða við Víðistaði og Öldutún verði bætt, í öðru lagi að nýjum samfélagsgörðum verði komið upp í öðrum hverfum og í þriðja lagi að skipulagður verði stærri garður rétt fyrir utan bæinn, þ.e. svokallaður nýlendugarður (kolonihave).

Mynd gerð með gervigreind

Tillagan leggur sérstaka áherslu á félagslega, umhverfislega og menntandi þætti slíkrar ræktunar, auk þess sem hún styður við andlega heilsu, lífsánægju og samheldni íbúa. Ef vel á til að takast, er nauðsynlegt að sinna verkefninu vel, vekja betur athygli á görðunum, bæta aðstöðu og tengja garðana við félagsstarf og fræðslu.

Mynd gerð með gervigreind

Hægt er að hefjast handa nú þegar við að bæta þá garða sem fyrir eru. Það þarf að setja upp girðingar og trjágróður til að auka skjólsæld, það þarf að tryggja aðgengi fyrir alla og skapa aðstöðu fyrir gesti. Hefjast þarf handa nú þegar við að finna heppilega reiti fyrir samfélagsgarða í nýrri hverfum og setja þá á skipulag. Einnig þarf að setja á skipulag nýlendugarð í upplandinu t.d. í Kjóadal þar sem aðstæður eru góðar, nægt landrými og samgönguleiðir eru greiðar. Framgangur tillögunar á þessu ári er að sjálfsögðu háður samstarfsvilja meirihluta bæjarstjórnar.

Tillöguna í heild sinni má finna hér.

Sigurjón Ingvason
áheyrnarfulltrúi Viðreisnar í skipulags- og byggingarráði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2