Eins og flestum lesendum Fjarðarfrétta ætti að vera kunnugt brann Krýsuvíkurkirkja til grunna aðfaranótt 2. janúar 2010, en var byggð að nýju af kennerum og nemendum Iðnskólans í Hafnarfirði undir skeleggri verkstjórn Hrafnkells Marinóssonar skv. upphaflegu fyrirmyndinni og flutt á kirkjustaðinn þann 10. okt. 2020.
Síðan eru liðin fjögur og hálft ár.

Kirkjur þarfnast eftirlits og viðhalds líkt og aðrar veraldlegar byggingar. Fyrir dyrum Krýsuvíkurkirkju eru tvennar hurðir, yrti vængjahurð og sú innri rammgerari. Innri hurðin hefur jafnan verið læst, en hægt var að opna þá ytri. S.l. vetur höfðu einhverjir aðkomandi gestir opnað hana upp á gátt, en gleymt að loka henni áður en þeir yfirgáfu vettvang. Í miklum vindi er fylgdi í kjölfarið aflagaðist opin hurðin með þeim afleiðingum að hún krafðist viðgerðar. Hrafnkell bjargaði málunum, lagfærði hurðina og bætti um betur; setti á hana læsingu. Hann tók í framhaldinu innri hurðina af hjörum og hún fylgdi honum á verkstæði skólans, sem nú heitir Tækniskólinn, til aðlögunarúrbóta fyrir dyrakarminn, sem var orðinn og þröngur fyrir þykkildið.

En hvað er karmur án hurðar? Nú, í aðdraganda vorsins, var komið að því að fylgja innri hurðinni aftur til heimkynna sinna í Krýsuvík. Hrafnkell fór við annan mann, Ómar Smára Ármannsson, leiðsögumann, s.l. fimmtudag með hurðina í kirkjuna og kom henni auðveldlega fyrir á hjörunum. Krýsuvíkurþokan sveipaði umhverfið þeirri dulúð sem það á skilið.
Við nánari skoðun á kirkjunni, bæði að utan og innan, kom í ljós hversu vel vandað hafði verið til handverksins. Hvergi var að sjá móta fyrir leka, innvolsið lyktaði enn af nýjum viði og andinn virtist dafna þarna með miklum ágætum – líkt og vera ber í almennt í kirkjum.

Félagarnir læstu báðum hurðunum á eftir sér. Þegar litið var til baka utan við garðhliðið sást einungis móta fyrir kirkjunni í þokunni. Væntanlega verður altaristafla Sveins Björnssonar borin þangað inn að venju um n.k. hvítasunnuhelgi undir tilheyrandi helgistund.

Ó.