Harður árekstur varð á FH torgi á níunda tímanum í kvöld þar sem tveir bílar skullu saman á móts við Bæjarhraun.
Lögregla, slökkvilið og sjúkrabílar komu á vettvang og þurfti tæki til að komast að ökumanni annars bílsins. Ekkert er þó vitað um slýs á fólki.
Árekstrar á FH torgi eru nokkuð algengir og hringtorgið sagt hættulegasta hringtorg á landinu. Flestir árekstrarnir eru þó minniháttar og afar sjaldgæft að slys verði á fólki.
Það vekur athygli að á þessu torgi er mjög algengt að ökumenn í ytri hring aki fram hjá tveimur örmum í þessu fimm arma hringtorgi. Þannig aka ökumenn sem koma úr suðri eftir Fjarðarhrauninu mjög gjarnan á hægri akrein og fara fram hjá Flatahrauni og Bæjarhrauni áður en sveigt er út á Fjarðarhraunið til norðurs. Eflaust hefur áhrif að Fjarðarhraunið til norðurs frá hringtorginu mjókkar fljótt í eina akrein og því eru þeir sem hafa verið á innri akrein í hringtorginu í þeirri stöðu að skipta þarf um akrein strax þegar komið er inn á Fjarðarhraunið sé ætlunin að halda áfram fram hjá Hjallahrauni.
Þá er mjög algengt að þeir sem koma vestur Flatahraunið, virði ekki umferð af innri akrein sem sveigir inn á Bæjarhraunið.
Hringtorgið er eins og áður segir fimm arma sem þykir mikið fyrir svona lítið hringtorg og mjög stutt er á milli þriggja arma, Fjarðarhrauns til norðurs, Bæjarhraun og Flatahrauns til austurs.
Vegagerðin hefur sett upp skilti við hringtorgið og varað við töfum vegna aðgerða til að tryggja öryggi.
