Listamenn eru mismunandi litríkir og þá jafn hvort horft er til litadýrðar í listaverkum þeirra eða hvort horft er á persónuleika þeirra.
Það er alveg hægt að segja að Ólöf Björg Björnsdóttir (44) sé litrík listakona. Hún er í dag með vinnustofu á 2. hæð í verslunarmiðstöðinni Firði þar sem hægt er að skoða mörg listaverk hennar. Hún leitar nú að nýrri vinnustofu.
Ólöf Björg útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2001 með málun sem aðalgrein og vorið 2007 lauk hún kennaranámi frá sama skóla. Einnig lærði hún myndlist við háskólann í Granada á Spáni og dvaldi á textílverkstæði Ami Ann og lærði hjá An Ho Bum í Seoul í Kóreu 1994-1995. Ólöf Björg hefur verið virk í myndlistinni frá útskrift, haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga og uppákomum ýmiskonar.
Undanfarið hefur hún vakið nokkra athygli fyrir litrík og frjálslegar portrett myndir sem hún gerir af gestum og gangandi og selur fyrir ótrúlega litla upphæð. En hún er líka að vinna mjög stór verk og vel þess virði að skoða nánar.