fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirLeikritið Hetjan frumsýnt í kvöld

Leikritið Hetjan frumsýnt í kvöld

Nýtt leikrit eftir Hafnfirðinginn Önnu Írisi Pétursdóttur

Hetjan, nýtt íslenskt leikverk sem fjallar um átta bekkjarfélaga og þeirra líf í miðju stríði, verður frumsýnt í Bæjarbíói í kvöld kl. 20.

Hetjan er ádeila á stríðsáróður en á sama tíma er þetta hugljúf þroskasaga átta ungmenna sem eru að reyna að fóta sig í aðstæðum sem þau fæddust inn í og hafa enga stjórn á. Ástir, vinátta og erfiðleikar unglingsáranna litast af yfirvofandi herskyldu og stöðugum fréttum af hinum ógnvænlegu hunds­mönnum.

Leikararnir. Efri röð frá vinstri: Birkir Sigurjónsson, Vala Kolbrún Sverrisdóttir, Ingimar Bjarni Sverrisson, Þórunn Guðmundsdóttir, Eiríkur Kúld Viktorsson, Dagur Sigurður Úlfarsson, Hans Alexander Margrétarson og Halla Sigríður Ragnarsdóttir
Neðri röð: Anna Íris Pétursdóttir, höfundur og leikstjóri og Birna Guðmundsdóttir.

Leikhópurinn, sem er á aldrinum 14-26 ára, túlkar líf og drauma persónanna á einstakan hátt, og vinna saman til að skapa þennan heim þar sem hættan er alltaf handan við hornið, en lífið heldur þó áfram.

Hugmyndin kviknaði á Friðarþingi skáta

Höfundur verksins er Hafnfirðingurinn Anna Íris Pétursdóttir, nýútskrifuð sviðslistakona frá Rose Bruford skólanum í Englandi. Þetta er þriðja verk hennar sem sett verður upp á Íslandi. Anna Íris segir hugmyndina að verkinu hafi kviknað á Friðarþingi skáta 2012, þegar hún fékk tækifæri til að kynnast ungmennum frá hinum ýmsum löndum og bera saman skoðanir þeirra á stríði, ástæðum þess og skaðsemi.

Verkið er unnið í samstarfi við Leikfélagið Óríon, sjálfstætt starfandi leikfélag sem Anna Íris stofnaði árið 2012, og hefur haft aðild að BÍL síðan 2014.

Vel leikið og áhrifaríkt

Leikmyndin er einföld en áhrifarík og tekst með einföldum tilfærslum að breyta henni í hin ýmsu form. Hinir ungu leikarar standa vel undir væntingum og leikur þeirra á forsýningu verksins var nær hnökralaus. Er ekki annað hægt en að hrósa þeim fyrir að túlka hina mismunandi einstaklinga sem þurfa að reyna á sorg og gleði í lífi sínu.

Önnu Írisi tekst vel upp í þessu verki að halda góðri spennu í verkinu sem er einföld ádeila á stríð og ofbeldi en sem tekur einnig á mörgum mannlegum vandamálum sem koma upp í lífi fólks, ekki síst á stríðstímum. Þó leikritið sé alls ekkert gamanleikrit þá eru mörg spaugileg atvik sem kitla hláturtaugarnar.

Hafnfirðingurinn Eiríkur Kúld Viktorsson í hlutverki sínu sem hermaður

Í heildina var upplifunin góð og er alveg óhætt að hvetja alla til að fara á leikritið. Þótt leikararnir séu ungir, þá höfðar leikritið til allra aldurshópa.

Leikendur

  • Birkir Sigurjónsson
  • Birna Guðmundsdóttir
  • Dagur Sigurður Úlfarsson
  • Eiríkur Kúld Viktorsson
  • Halla Sigríður Ragnarsdóttir
  • Hans Alexander Margrétarson Hansen
  • Ingimar Bjarni Sverrisson
  • Vala Kolbrún Sverrisdóttir
  • Þórunn Guðmundsdóttir.

Anna Íris leikstýrir verkinu, Svanur Logi Guðmundsson sér um lýsingu, Viktor Ingi Guðmundsson semur tónlist og Sophie May Nicholls sér um leikmynd.

Leikfélagið fer með leikritið til Bretlands í sumar og mun sýna það á tveimur til þremur stöðum.

Fjórar sýningar

Sýningar verða fjórar í Bæjarbíói, í kvöld, á laugardag, 9. mars kl. 20 og 10 mars. Allar sýningarnar hefjast kl. 20. Miðasala er á miði.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2