Sex skipulagsbreytingar eru nú í umsagnarferli í Hafnarfirði þar sem bæjarbúum er gefinn kostur á að gera athugasemdir og koma með ábendingar.

Ef marka má kynningarfund um skipulagsbreytingar vegna Kaldárselsvegar og Ásvallabrautar er verulegur misbrestur á því að bæjarbúar séu vel upplýstir um þær breytingar sem fyrirhugaðar eru. Aðeins einn fundur hefur verið auglýstur með lítilli auglýsingu í Fjarðarfréttum og Hafnarfjarðarbær hefur ekki þegið boð um samstarf við Fjarðarfréttir um bætta kynningu á skipulagsbreytingum.

  • Á föstudag er síðasti möguleiki á að senda inn athugasemdir vegna skipulagsbreytingar á Hverfisgötu 4b og 6b.
  • 10. apríl er síðasti möguleiki á að senda inn athugasemdir vegna breytingar á deiliskipulagi fyrir Kaldárselsveg.
  • 11. apríl er síðasti möguleiki á að senda inn athugasemdir vegna breytingar á deiliskipulagi Suðurhafnar vegna Fornubúðar 5.
  • 11. apríl er síðasti möguleiki á að senda inn athugasemdir vegna breytingar á deiliskipulagi Breiðhellu 18 og 20.
  • 1. maí er síðasti möguleiki á að senda inn athugasemdir vegna breytingar á deiliskipulagi Selhrauns norður vegna Selhellu 1.
  • 5. maí er síðasti möguleiki á að senda inn athugasemdir vegna breytingar á deiliskipulagi vegna Hamarsbrautar 5.

Fyrir utan þetta er í gangi kynning á tillögum hönnuða vegna Hraun vestur, sem er iðnaðarsvæðið sem markast af Reykjavíkurvegi, Flatahrauni og Fjarðarhrauni.

Einnig er í gangi kynning á verkefnalýsingu og breytingu á aðalskipulagi vegna staðsetningar Borgarlínu.

Skoðaðu þær breytingar sem eru í kynningu hér.

Ferli deiliskipulagsgerðar

  • Lýsing deiliskipulagsverkefnis:

Í upphafi vinnu að deiliskipulagi tekur skipulagsnefnd sveitarfélagsins saman lýsingu fyrir deiliskipulagsverkefnið þar sem gerð er grein fyrir tildrögum skipulagsvinnunnar og hvernig fyrirhugað er að standa að skipulagsgerðinni. Ef landeigandi eða framkvæmdaraðili stendur að deiliskipulagsvinnunni, vinnur hann lýsingu og leggur fyrir sveitarstjórn. Lýsing er samþykkt í sveitarstjórn.

Lýsingin er kynnt opinberlega og almenningur fær tækifæri til að koma ábendingum á framfæri við sveitarfélagið. Samtímis er leitað umsagnar Skipulagsstofnunar og annarra umsagnaraðila.

  • Tillaga að deiliskipulagi:

Deiliskipulagstillaga er unnin í samræmi við lýsingu skipulagsverkefnisins og með hliðsjón af þeim ábendingum sem borist hafa frá almenningi og umsagnaraðilum á fyrri stigum.

Við gerð deiliskipulags eru umhverfisáhrif metin og niðurstöður umhverfismatsins nýttar við endanlega mótun skipulagstillögunnar. Deiliskipulagstillaga skal unnin í samráði við íbúa og aðra hagsmunaaðila. Samráð í vinnsluferlinu fer eftir eðli og umfangi skipulagstillögunnar.

Þegar skipulagstillaga er fullgerð er hún samþykkt af sveitarstjórn til formlegrar auglýsingar og hefur almenningur þá tækifæri til að koma á framfæri skriflegum athugasemdum.

  • Fullunnið deiliskipulag:

Þegar frestur til athugasemda er liðinn tekur skipulagsnefnd afstöðu til athugasemda og leggur fram endanlega tillögu til samþykktar í sveitarstjórn. Deiliskipulagið ásamt fylgiskjölum er síðan sent Skipulagsstofnun til yfirferðar.

Deiliskipulag tekur gildi þegar það hefur verið samþykkt af sveitarstjórn og auglýst
í B–deild Stjórnartíðinda.

Sé deiliskipulag ekki auglýst til gildistöku í Stjórnartíðindum innan árs frá því að athugasemdafresti við deiliskipulagtillögu lauk, þarf að auglýsa deiliskipulagstillöguna á ný til kynningar og athugasemda.

Lög og reglugerðir

Skipulagslög

Skipulagsreglugerð

Heimild: Skipulagsstofnun

 

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here