Karlalið Hauka í handbolta er úr leik í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta eftir naumt tap gegn Fram í oddaleik á Ásvöllum.
Haukar byrjuðu betur en þegar Fram hætti að nota sjöunda manninn í sókn jafnaðist leikurinn og staðan í hálfleik var 14-13 fyrir Fram.

Leikmenn Fram voru ívið sprækari í síðari hálfleik og náðu mest 4 marka forystu. Á lokamínútunum minnkuðu Haukar muninn og Adam Haukur Baumruk jafnaði fyrir Hauka þegar 5 sekúndur voru eftir og tryggðu Haukum framlengingu.
Allt var jafnt í framlengingunni og endaði svipað og í venjulegum leiktíma en nú voru það leikmenn Fram sem skoruðu jöfnunarmark þegar örstutt var til loka framlengingarinnar.

Þá var aftur framlengt um 2x 5 mín og enn var jafnt og spennan var gríðarleg á Ásvöllum. Nú höfðu Haukar frumkvæðið en Fram komst svo yfir í lokin en enn jöfnuðu Haukar 43-43 þegar 4 sekúndur voru eftir og gripið var til vítakastkeppni.
Þar byrjuðu Haukar vel og allt ætlaði að ærast þegar Giedrius Morkunas varði fyrsta vítakast Fram. Tjörvi Þorgeirsson, sem stóð sig frábærlega í leiknum skoraði svo fyrir Hauka. Þá var komið að Fram að skora og þar var að verki Andri Þór Helgason.

Þá var komið að hinum 16 ára markmanni Fram sem hafði varið eins og berserkur í leiknum. Varði hann skot Guðmundar Árna Ólafssonar og hvort lið hafði því varið eitt skot.

Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði svo fyrir Fram og Hákon Daði Styrmisson skoraði fyrir Hauka. Arnar Birkir Hálfdánsson kom Fram svo yfir en Brynjólfur Snær Brynjólfsson skaut í stöng og Þorgeir Bjarki Davíðsson tryggði svo sigur Fram og Íslandsmeistarar Hauka eru úr leik.
Daníel Þór Ingason skoraði flest mörk Hauka, 12 og Tjörvi Þorgeirsson skoraði 10. Adam Haukur Baumruk skoraði 8 og Guðmundur Árni Ólafsson skoraði 6 en aðrir skoruðu minna.
Hjá Fram var Arnar Birkir Hálfdánsson markahæstur með 12 mörk en Andri Þór Helgason og Þorgeir Bjarki Davíðsson skoruðu 11 mörk hvor.

Valur sló í dag ÍBV út og mætir því Fram í undanúrslitum en FH mætir Aftureldingu. Nú kemst það lið sem fyrr sigrar í þremur leikjum í úrslit.
FH mætir Aftureldingu í fyrsta leiknum miðvikudaginn 19. apríl kl. 20 í Kaplakrika.