fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimFréttirHeiðraðir á Sjómannadeginum

Heiðraðir á Sjómannadeginum

Þrír sjómenn voru heiðraðir fyrir störf sín og var þeim veittar viðurkenningar á hátíð Sjómannadagsins í Hafnarfirði sl. sunnudag.

Ívar Bjarnason.

Ívar Bjarnason háseti, fæddist þann 6. febrúar 1951 í Reykjavík.  Foreldrar hans eru Auður Sigurðardóttir og Bjarni Bjarnason sem er látinn.

Ívar byrjaði til sjós 16 ára gamall árið 1967  sem háseti á Maí GK og var þar með skipstjórunum Halldóri Halldórssyni, Svavari Benediktssyni, Sigurði Jónssyni og Júlíusi Skúlasyni.

Árið 1976 fór Ívar á Guðstein GK sem Svavar stýrði og síðar á Jón Dan GK en þar voru skipstjórar Eðvald Eyjólfsson og Guðmundur Jónsson.  Næst lá leiðin á Vísi undir skipstjórn Jóns Gunnars Helgasonar og síðan á  Svein Jónsson, Gautann og að síðustu á Víði en á þessum þremur skipum var Gísli Arnbergsson skipstjóri.

Ívar hætti föstum störfum til sjós árið 1991 eftir nær 25 ára samfellda sjómennsku.  Hann sagði þó ekki skilið við sjóinn því hann eignaðist sinn eigin bát árið 2010.

Ívar er giftur Gunnhildi Ástu Gunnarsdóttur. Hann á 6 börn og 4 barnabörn.

Júlíus Hólmgeirsson

Júlíus Hólmgeirsson vélstjóri fæddist þann 7. janúar árið 1950 í Hafnarfirði.  Foreldrar hans eru Kristjana Björg Þorsteinsdóttir og Hólmgeir Júlíusson sem lést í september 2014.

Júlíus byrjaði til sjós 16 ára gamall árið 1966 og stundaði sjómennsku með námi.  Hann fór í Vélskólann árið 1973 og lauk það námi árið 1976.  Hann hóf síðan störf sem vélstjóri á Hörpu RE á síldveiðum og síðan var hann á ýmsum torgurum sem gerðir voru út héðan frá Hafnarfirði m.a. Rán og Ými.

Júlíus hefur einnig verið vélstjóri á ýmsum fraktskipum hjá bæði Eimskip og Nesskipum.  Þá starfaði hann um tíma sem vélvirki í vélsmiðju Péturs Auðunssonar og í Vélsmiðju Jóhanns Ólafs sem báður voru starfræktar hér í Hafnarfirði um langt árabil.

Í dag starfar Júlíus sem vélstjóri á Drífu GK sem stundar sæbjúgnaveiðar.

Júlíus er giftur Sveinrúnu Bjarnadóttur og eiga þau 6 börn og 7 barnabörn.

Þóður Pálmason

Þórður Pálmason skipstjóri fæddist á Lögbergi á Fáskrúðsfirði, þann 25. desember árið 1945.  Foreldur hans voru þau Pálmi Þórðarson og Þóra Stefánsdóttir.

Þórður fór fyrst til sjós á trillu frá Fáskrúðsfirði með fóstra sínum 12 ára gamall og fór síðan á síldveiðar á Sigurbjörgu SU árið 1959.

Næstu tvö sumur var hann á snurðvoð á Vini SU og Vísi SU og síðan á vertíð í Grindavík á Sigurbjörgu SU frá 1961 til 63. Þórður var á Hoffelli SU og Báru SU 1964 og 65 og fór síðan í Stýrimannaskólann.

Eftir nám tók Þórður við skipstjórn á Sigurbjörgu SU í 4 ár.  Fór síðan á Þorstein Gíslason KE og þaðan á Skúm KE og síðar á Hafberg GK.   Þórður sigldi ferju í Svíþjóð næstu ár og síðan á skuttogaranum Otri hér í Hafnarfirði árið 1977.

Hann var síðan með Jóhann Gíslason og Dalaröstina hjá Glettingi í Þorlákshöfn næstu árin og í liðlega áratug með Höfrung II GK.  Á árunum 1995 til 2005 var Þórður skipstjóri á Hrungni GK og frá 2005 til 2016 á Jóhönnu Gísladóttur.

Þórður var giftur Sólrúnu Gunnarsdóttur en hún lést  þann 9. maí á sl. ári.  Þau Þórður og Sólrún eignuðust 5 dætur og 15 barnabörn.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2