Umhverfis- og framkvæmdaráð Hafnarfjarðar veitti annað árið í röð viðurkenningar til lóðarhafa fyrir snyrtimennsku. Komu þær til eftir að fegrunarnefnd bæjarins hafði verið lögð niður.
Í fyrra voru veittar viðurkenningar fyrir snyrtilegustu og fallegustu garðana, snyrtilegustu fjölbýlishúsalóðina, snyrtilegustu fyrirækjalóðirnar og fallegustu götuna.
Í ár voru veittar 9 viðurkenningar en alls bárust 18 ábendingar frá almenningi en kallað hafði verið eftir því m.a. á Facebook.
Viðurkenningarnar voru afhentar hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar í Höfðaskógi og voru verðlaunahafar leystir út með trjáplöntugjöf. Helga Ingólfsdóttir bæjarfulltrúi og Berglind Guðmundsdóttir, landslagsarkitekt hjá Hafnarfjarðarbæ afhentu viðurkenningarnar.
Lindarberg 82
„Mjög fallegur og snyrtilegur garður með gott úrval plantna. Eigandinn hefur þor og seiglu til að prufa nýjar og framandi tegundir og gefst ekki upp þótt móti blási heldur skiptir út og prufar eitthvað nýtt ef annað virkar ekki. Hér eru greinilega eigendur sem hafa áhuga á garðrækt.“ Hildur Ómarsdóttir og Pétur Pétursson tóku við viðurkenningunni.
Fjóluhlíð 12
„Hér eru garðáhugamenn á ferð, nokkur fjölbreytni í gróðri og búin að merkja fjölæringana sérstaklega í garðinum sem var skemmtilegt. Rúmgóðir pallar og snyrtimennska.“ Birna Guðmundsdóttir og Pétur Pétur Joensen.
Lækjargata 12b
„Frábær garður og á sannarlega skilið viðurkenningu. Einstaklega fagur með mikla fjölbreytni í gróðri þar sem hugað er að hverju smáatriði. Frábært hvernig Hamarinn fær notið sín í þessum garði. Hér er mikill gróðuráhugi á ferð ásamt góðu viðhaldi. Þessi er sá flottasti!“ Eigendur eru Ida Sveinsdóttir og Ríkharður Kristjánsson. Íris dóttir þeirra tók við.
Öldugata 6
Mjög skemmtilegur bakgarður, ævintýragarður með allskonar dúlleríi haganlega fyrir komið. Útigrill, heitur pottur, rósabeð og skemmtilegt port þegar að húsi er komið þar sem maður getur fengið sér sæti og notið garðsins ef íbúar eru lengi að koma til dyra eða ekki heima.“ Egill Strange og Sveinbjörg Bergsdóttir.
Hafravellir 5
„Mjög snyrtilegur og fallegur garður á Völlunum þar sem hraunið hefur fengið að njóta sín. Snyrtimennska og fjölbreytni í gróðri.“ Eiður Arnar Pálmason og Bryndís Hulda Ríkharðdóttir.
Ölduslóð 9
„Mjög snyrtilegur garður í grónu hverfi, hér hefur verið tekið rækilega í gegn og heildarmyndin er sannarlega falleg og garðurinn er samræmi við stíl hússins og þess tíma sem húsið var byggt.“ Dagný Thorarensen og Steinþór Hlöðversson.
Snyrtilegasta fjölbýlishúaslóðin var Hraunvangur 1-3
„Mjög fallegar og snyrtilegar lóðir þar sem hraunið fær notið sín. Aðgengi er gott og notendavænt fyrir íbúa, góðar gönguleiðir og rými til að setjast niður og njóta sólar og útsýnis.“ Hálfdán Henrýsson formaður Sjómannadagsráðs tók við viðurkenningunni.
Golfarar og eldri skátar eiga snyrtilegustu lóðir félagasamtaka
Golfklúbburinn Keilir
„Virkilega falleg og snyrtileg aðkoma með velhirtum gróðurbeðum og almennri snyrtimennsku. Hér hefur verið lagt mikið uppúr að hirða græn svæði umhverfis húsið vel og leyfa náttúrunni að njóta sín samhliða. Fjölbreytni í gróðri. Almennt er allur völlurinn vel hirtur og til mikillar fyrirmyndar.“ Arnar Borgar Atlason formaður og Sveinn Sigurbergsson varaformaður tóku við viðurkenningunni.
St. Georgsgildið í Hafnarfirði, Skátalundur við Hvaleyrarvatn
„Mikil snyrtimennska og alúð lögð við skálann og umhverfi hans. Skemmtilegar leikjaflatir i skóginum og yndislegt útsýni yfir Hvaleyrarvatn. Þarna er allt á sínum stað.“ Guðni Gíslason gildismeistari og Sigurður Baldvinsson skálanefndarmaður tóku við viðurkenningunni.