FH-ingar byrjuðu Íslandsmótið með krafti er þeir sigruðu Fram á útivelli 43-26 og voru því til alls líklegir í leik gegn Aftureldingu á heimavelli. Þjálfari Aftureldingar er sem kunnugt er fyrrum þjálfari FH og Hafnfirðingurinn Einar Andri Einarsson en lið hans hafði tapað gegn ÍBV í fyrstu umferð.
Leikurinn var spennandi frá upphafi til enda, jafnt var á flestum tölum en FH-ingar oftast með yfirhöndina. Staðan í hálfleik var 16-16 og spennan hélt áfram.
FH náði 3 marka forskoti í lokin en leikmenn Afturereldingar neituðu að gefast upp og enn jöfnuðu þeir leikinn. FH-ingar voru svo sterkari í lokamínútunum og unnu leikinn með tveimur mörkum, 32-30.
Ásbjörn Friðriksson og Einar Rafn Eiðsson voru markahæstir FH-inga með 7 mörk hvor en Elvar Ásgeirsson skoraði flest mörk Aftureldingar, 8.
Birkir Fannar Bragason átti góða spretti í marki FH en Ágúst Elí Björgvinsson náði sér ekki á strik.
Áhorfendur voru 540.