Í óveðrinu sem gekk yfir landið í gærkvöldi og nótt urðu tvær stórar truflanir sem leiddu til þess að yfir 40 þúsund manns á Reykjanesi, í Hafnarfirði, Garðabæ, Vestmannaeyjum, Vík í Mýrdal og nágrenni urðu rafmagnslaus um tíma.
Rafmagnslaust vegna eldingar
Um klukkan níu í gærkvöldi sló eldingu niður í Suðurnesjalínu 1 og rafmagn fór af öllum Reykjanesskaganum með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa og fyrirtæki. Meðal annars var ekki hægt að afhenda rafmagn til Keflavíkurflugvallar og virkjanir á Reykjanesi leystu út í kjölfarið sem leiddi til algjörs rafmagnsleysis á svæðinu.
Strax var farið í að koma rafmagni á aftur. Rafmagn var komið á stóran hluta svæðisins eftir um það bil klukkutíma.
Vegna bilunar í aflrofa fyrir Suðurnesjalínu 1 stóð rafmagnsleysið lengur en ella. Erfitt hefur reynst að sinna viðhaldi á rofanum vegna mikilvægis línunnar en ekki hefur verið hægt að taka línuna út þar sem Suðurnesjalína 1 er eina línan sem tengir Suðurnes við meginflutningskerfið.
Spennir í tengivirkinu við Öldugötu sló út
Á sama tíma fór út spennir HS veitna í tengivirkinu við Öldugötu í Hafnarfirði og urðu notendur í Hafnarfirði og Garðabæ rafmangslausir í um hálftíma. Á þessari stundu liggur orsökin ekki fyrir.
Vestmanneyjar, Vík og nærsveitir rafmagnslaus vegna eldingar
Rétt fyrir klukkan ellefu varð Rimakotslína 1 fyrir eldingu og við það urðu Vík í Mýrdal, nærsveitir og Vestmannaeyjar rafmagnslausar. Flokkur frá Landsneti fór meðfram línunni til að kanna skemmdir og hvort hætta stafaði af línunni þar sem þjóðvegurinn liggur á nokkrum stöðum undir línunni. Rafmagn var komið á um miðnætti.
Heimild: Landsnet.