fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimFréttirFækkar um 110 á biðlista eftir félagslegu húsnæði

Fækkar um 110 á biðlista eftir félagslegu húsnæði

Fáir brugðust við ítrekunarbréfum og féllu því af biðlista um félagslegt leiguhúsnæði

Þann 1. september 2017 voru 230 umsóknir eftir félagslegu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ á biðlista. Þá var brugðið á það ráð að óska eftir gögnum til endurmats á umsóknunum. Send voru ítrekunarbréf og ítrekun í tölvupósti sem fáir brugðust við og voru umsóknir þeirra þar af leiðandi metnar af biðlista. Hjá öðrum voru aðstæður breyttar, tekjur breyttust, fólk flutti úr sveitarfélaginu og bættur húsnæðiskostur.

120 umsóknir á biðlista

Fækkaði þá á biðlistanum um 110 og eru í dag 120 umsóknir á biðlista.
Í flestum umsóknum, eða 65, er óskað eftir eftir 2ja herbergja íbúð, 37 óska eftir 3ja herbergja íbúð, 10 óska eftir 4 herbergja íbúð, 4 eftir 5 herbergja íbúð og 4 eftir einstaklingsíbúð.

Á sama tíma lágu fyrir óskir 46 skjól­stæðinga um flutning í annað félagslegt leiguhúsnæði en eftir að óskað hafði verið eftir að umsókn væri endurnýjuð fækkaði á listanum því aðeins 14 af þessum 56 brugðust við og sendu inn umsókn um flutning.

Tekjumörk einstaklinga til að komast í félagslegt leiguhúsnæði er 5.105.000 kr. á ári en hjóna eða sambúðarfólks 7.148.000 kr. á ári. Þá bætast við 1.276.000 kr. fyrir hvert barn að 20 ára aldri sem býr á heimilinu.

Eignamörk eru 5,5 milljónir kr. í hreina eign.

253 íbúðir í útleigu

253 leigjendur eru í dag í félagslegu húsnæði á vegum Hafnarfjarðarbæjar og hafa flestir leigjendur verið í 1-14 ár en 16 leigjendur hafa verið í 15 og allt upp í 34 ár í félagslegu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ. 25 nýir leigjendur hafa verið styttra en eitt ár í félagslegu leiguhúsnæði.

Unnið er að gagnagrunni til að skerpa á vinnulagi í húsnæðismálum. Þá er Fjölskyldþjónustan í samstarfi við fjár­reiðudeild að vinna með vanskil skjól­stæðinga á húsaleigu og greina þá leigj­endur sem eru með of há tekjumörk.

Íbúðum fjölgað

Rannveig Einarsdóttir

„Við höfum síðustu tvö árin verið að fjölga íbúðum í kerfinu,“ segir Rannveig Einarsdóttir sviðsstjóri fjölskyldusvið í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta. „Á árinu 2016 var varið 100 milljónum kr. til kaupa á íbúðum, 200 milljónum kr. árið 2017 og á fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir 500 milljónum kr. í íbúðakaup. Keyptar voru þrjár íbúðir 2016 og sex íbúðir 2017.“

Hafnarfjarðarkaupstaður er stofnandi húsnæðissjálfseignarstofnunar sem áætlað er að byggi 12  íbúðir í Skarðshlíð. Tilgangur félagsins er að byggja eða kaupa, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna. Sótt hefur verið um stofnframlög til bygginganna og undirbúningur verkefnisins er í fullum gangi.

Í júlí 2016 var undirrituð viljayfirlýsing milli Hafnarfjarðarkaupstaðar og ASÍ um samstarf um uppbyggingu leiguíbúða í Hafnarfirði. Samkvæmt yfirlýsingunni á ASÍ að vinna að stofnun og fjármögnun húsnæðissjálfseignarstofnunar til að hefja uppbyggingu 150 leiguíbúða fyrir fjölskyldur og einstaklinga á næstu fjórum árum. Hafnarfjörður gerði það að skilyrði fyrir veitingu stofnframlaga til verkefnisins að fjölskylduþjónustan hafi að jafnaði ráðstöfunarrétt á 25% íbúðanna.

Rannveig segir áætlanir vera um uppbyggingu íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í sveitarfélaginu. „Fyrstu íbúarnir fluttu í nýjan búsetukjarna að Klukkuvöllum árið 2015 en þar búa sex fatlaðir einstaklingar. Á áætlun er bygging búsetukjarna að Arnarhrauni 50 og einnig að Öldugötu 41. Samtals er hér um íbúðir að ræða fyrir 12 íbúa. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við bæði þessi verkefni á næstu mánuðum.” Jafnframt gera áætlanir ráð fyrir uppbyggingu þriðja kjarnans en ekki hefur verið gengið frá staðsetningu að sögn Rannveigar.

„Auk þessa er rétt að nefna að Hafnarfjarðarbær greiðir lögum samkvæmt sérstakan húsnæðisstuðning og hefur sett sér reglur sem kveða á um að sérstakur húsnæðisstuðningur sé 90% af almennum húsnæðisstuðningi. Áhersla hefur verið á að auka rétt leigjenda með lágmarkstekjur og háar húsaleigugreiðslur.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2