fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimFréttirMenning og mannlífLeikfélag Hafnarfjarðar fær ekkert húsnæði

Leikfélag Hafnarfjarðar fær ekkert húsnæði

Hafa æft í heimahúsum og úti í bæ

Leikfélag Hafnarfjarðar fagnar 82 ára afmæli sínu í ár og á að baki glæstan feril þó oft hafi illa árað hjá félaginu og starfið legið niðri. Frá 1983 hefur verið gróskumikið starf í félaginu en félagið hafði aðstöðu í Bæjarbíói frá 1984-1999 þegar það varð að víkja fyrir Kvik­myndasafni Íslands og fór á hrakhóla með húsnæði. Félagið var næstu ár í sambúð með Hafnarfjarðar­leikhúsinu – Hermóði og Háðvöru í húsi Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar þangað til það var rifið árið 2004. Fékk félagið þá inni í Lækjarskóla í litlum sal sem útbúinn var á jarðhæðinni. Árið 2011 fékk félagið inni í Gaflara­leik­húsinu enda hafði stærð húsnæðis í Lækjar­skóla staðið starfinu fyrir þrifum. Á síðasta ári var samningur við Lei­kfélagið um starf í Gaflaraleikhúsinu ekki endurnýjaður og þrátt fyrir ítrekað­ar fyrirspurnir hefur Hafnarfjarðarbær ekki getað boðið félaginu neitt húsnæði.

Engin lausn í sjónmáli

Gísli Björn Heimisson

Að sögn Gísla Björns Heimissonar, formanns Leikfélags Hafnarfjarðar, er engin lausn í sjónmáli. Síðustu tillögu var sópað út af borðinu er menningar- og ferðamálanefnd lagðist gegn því að samið verði um að bærinn skuldbindi sig til að greiða leigu fyrir frjáls félaga­samtök til þriðja aðila, en Leikfélagið gat þá tekið á leigu aðalhæðina í gamla Sjálfstæðishúsinu á Strandgötu.

Vildu inni í kapellu

Í byrjun júní sl. lagði félagið til að Hafnarfjarðarbær fengi þeim afnot af „kapellunni“ í St. Jósefsspítala og segir Gísli að bæjarstjóri hafi á fundi með forsvarsmönnum félagsins 28. júní sagt að tillagan færi til umfjöllunar í nefnd sem gera átti tillögu að nýtingu gamla spítalans.

Þegar nefndin skilaði inn tillögum í október sl. var hvergi minnst á leik­félagið en sérstaklega lagt til „að hún verði ekki fest of mikið í eitt form“.

Segir Gísli hins vegar að félagið hafi hvorki fengið já eða nei við fyrirspurn sinni.
Félagið er á hrakhólum með eigur sínar í gámi á geymslusvæði. Þó hefur félag­inu tekist að setja upp tvö stuttverk í samstarfi við Leikfélag Kópavogs sem æfð voru í heimahúsum og úti í bæ

Boðið til Tékklands

Í framhaldi af velgengni Leikfélags Hafnarfjarðar í Mónakó í haust hefur félaginu verið boðið að koma með sýninguna á Ubba kóngi á leiklistar­hátíð­ina Jiraskuv Hronov í Tékklandi í ágúst. Hátíðin er ein af þeim elstu á sviði áhugaleikhúss í Evrópu og segir Gísli það spennandi tilhugsun að félagið fari enn og aftur á erlenda grund sem fulltrúi íslenska áhugaleikhússins og íslenskrar menningar.

Greinin birtist í Fjarðarfréttum, vikublaði 25. janúar 2018

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2