Karlar í skúrum er verkefni sem Rauði krossinum í Hafnarfirði og Garðabæ er að hrinda af stað. Verkefnið er að ástralskri fyrirmynd, „Men‘s Shed“ og hefur gengið vel víðsvegar um Evrópu. Karlar í skúrum er opið fyrir alla karlmenn og gefur þeim stað og stund til að hittast, spjalla og vinna að ýmsum sameiginlegum verkefnum sem þeir sjálfir ákveða.
Kynningarfundir hafa verið haldnir og hafa áhugasamir karlar mætt og segir Hörður Sturluson, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum að verið sé að leita að hentugu húsnæði. Hver hópur ræður sér sjálfur og hefur 3ja manna stjórn og verkefnin geta verið fjölbreytt. Segir Hörður að reynslan á Írlandi t.d. hafi verið að flestir sinna verkefnum sem snúa að vinnu með timbur og þar hafa menn smíðað stóra og smáa hluti og einnig gert við eigin hluti eða annarra. En hópurinn ræður sjálfur hvað hann gerir og ræðst húsnæðisþörfin af því. Starfsemin gæti verið í húsnæði í opinberri eigu eða jafnvel skúr í eigu einhvers þátttakandans.
Hörður segir húsnæðið ekki þurfa að vera fullbúið og gætu þátttakendur komið að endurbótum á því. Óskastaðan er að starfið sé án kostnaðar fyrir þátttakendur og kostað t.d. með fjáröflunum og styrkjum í samstarfi við Rauða krossinn sem leiðir verkið.
Áhugasamir eru hvattir til að hafa samband við skrifstofu Rauða krossins á Strandgötu.
í morgun voru átta karlar mættir ásamt Herði til að ræða framtíð verkefnisins. Kaffi og vínarbrauð var í boði en menn voru greinilega ákafir að komast í gang. Húsnæðismálin voru ofarlega í huga og upplýsti Hörður um húsnæði í Garðabæ sem bæjaryfirvöld í Garðabæ bentu á, hluti af húsnæði við Skeiðarás sem er í eigu stórs fyrirtækis. Jákvæð viðbrögð komu frá fyrirtækinu og nokkrir karlanna voru tilbúnir að fara með Herði og skoða húsnæðið.
Vangaveltur höfðu verið um húsnæði t.d. í St. Jósefsspítala og einnig kom gamla handavinnustofan við gamla Lækjarskóla til umræðu. Ekkert var ákveðið en skoða á alla möguleika en fram kom að formlegar viðræður hafa ekki verið við Hafnarfjarðarbæ um aðkomu að verkefninu.
Ýmsar hugmyndir höfðu komið fram um verkefni, trésmíði, listmálun, tálgun í tré og útskurð, leðurvinnu, ljósmyndun og framköllun með gamla laginu, hnífagerð og fleira.
Leitað var eftir mönnum í stjórn þessa fyrsta hóps og voru þrjú nöfn þegar komin á blað. Karlarnir horfðu á myndband frá Írlandi þar sem karlar sem voru í Man‘s Sheds þar lýstu ánægju sinni með starfið en víða má finna upplýsingar um sambærilegt vel heppnað starf erlendis.
Á Írlandi voru samtök stofnuð um þetta verkefni og upplýsingar má fá á www.menssheds.ie og í Ástralíu eru samtök þar sem finna má á www.mensshed.org