Á fimmtudagskvöldum í sumar býður Heilsubærinn Hafnarfjörður upp á menningar- og heilsugöngur um sveitarfélagið þar sem ýmsum fróðleik er miðlað á ferð um bæinn.
Á fimmtudaginn kl. 18 mun Kolbrún Kristínardóttir, barnasjúkraþjálfari og áhugamaður um útivist og samverustundir utandyra, leiða fjölskyldugöngu í Valaból sem er mikill ævintýrastaður með góðum klifurtrjám og spennandi hellisskúta.
Leiðin að Valabóli er um það bil 2,5 km löng og auðgeng. Gengið verður frá bílastæðinu við Kaldárselsveg og eru allir hvattir til að taka með nesti og klæða sig eftir veðri. Ferðin tekur um það bil 3-3,5 klst í heildina og á leiðinni verður farið í alls kyns skemmtilega leiki.
Tilvalið er að koma við í Fosshelli í Helgadal og finna merki nr. 9 í Ratleik Hafnarfjarðar.