fbpx
Miðvikudagur, janúar 22, 2025
HeimÁ döfinniKvennakór Hafnarfjarðar fagnar sumrinu með tónleikum 9. maí

Kvennakór Hafnarfjarðar fagnar sumrinu með tónleikum 9. maí

Gakk þú út í græna lundinn er yfirskrift tónleikanna sem verða í Hásölum

Vortónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar eru jafn sjálfsagður viðburður og söngur vorboðanna á þessum tíma árs. Kórinn ætlar að fagna sumrinu með tónleikum í Hásölum fimmtudaginn 9. maí kl. 20. Yfirskrift tónleikanna, Gakk þú út í græna lundinn, er fengin úr hinu undurfallega ljóði Jóhannesar úr Kötlum, Vikivaka, sem kórinn syngur við lag Valgeirs Guðjónssonar í upphafi tónleikanna.

Íslensk sönglög í bland við djasssveiflu og söngleikjalög

Frá því að æfingar hófust á nýju ári hafa kórkonur lagt kapp á að æfa sumarlega og fallega efnisskrá sem þær munu leyfa gestum að njóta á tónleikunum í Hásölum. Lagavalið er fjölbreytt og kryddað andblæ hlýju og léttleika. Fyrri hluti tónleikanna er tileinkaður íslenskum sönglögum og sígildri erlendri tónlist en eftir hlé verður slegið á örlítið léttari strengi með djasssveiflu, söngleikja- og kvikmyndatónlist og gospelsöngvum.

Vortónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar hafa ávallt verið vel sóttir og að þessu sinni verður ekkert til sparað til þess að skemmta áheyrendum sem best með söng og hljóðfæraslætti. Auk Antoníu Hevesi, sem leikur á píanó, kemur fram með kórnum Jóhann Hjörleifsson sem leikur á slagverk, Jón Rafnsson á bassa og ungur og efnilegur nemandi í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Oddný Árnadóttir, leikur á selló. Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir.

Miðar verða seldir hjá kórkonum og við innganginn. Miðaverð er 2.500 kr. og er frítt fyrir börn 12 ára og yngri. Tónleikagestum verður boðið að þiggja kaffi og konfekt í tónleikahléi.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2