Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna verður í ár haldin í fimmta skiptið 16.-17. febrúar í Bíó Paradís við Hverfisgötu í Reykjavík. Hátíðin, sem núna í ár er fyrst orðin sjálfstæð eining, hófst sem áfangi í kvikmyndagerð í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og hefur verið að fullu rekin áfram af nemendum skólans. Nemendur skólans sjá um að kjósa hátíðarstjóra, gera dagskrá hátíðarinnar, finna heiðursgesti, hanna veggsjald og bækling ásamt öðru kynningarstarfi. Núna á þessu ári eru nemendur við kvikmyndahátíðina farnir að nýta sér viðskipta- og hagfræðinemendur til að sinna bókhaldi og markaðsmálum fyrir hátíðina.
Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna byrjaði sem pælingar á því hvernig hægt væri að kenna nemendum viðburðastjórnun og hvernig hægt væri að setja upp hátíð sem þessa. Hugmyndin á bak við Kvikmyndahátíð framhaldsskólanna er byggð á norrænu heimilda- og stuttmyndahátíðinni Nordisk Panorama.
Þrír skólar á landinu kenna kvikmyndanám og hafa þeir hingað til allir tekið þátt í keppninni. Þetta eru Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Tækniskólinn og Borgarholtsskóli.
Hátíðin er þó ekki takmörkuð við þessa þrjá skóla og getur hver sem er úr hvaða skóla sem er sent inn sína stuttmynd. Stuttmyndir fyrir hátíðina hafa borist frá Menntaskólanum á Egilsstöðum, Menntaskólanum við Hamrahlíð, Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, Fjölbrautaskóla Snæfellinga, Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra, Fjölbrautaskóla Vesturlands og Menntaskóla Borgarfjarðar.
Hátíðin hefur frá upphafi verið fjármögnuð með styrkjum frá hinum ýmsu aðilum en helstu styrktaraðilar hátíðarinnar eru Mennta- og menningarmálaráðherra, Kvikmyndamiðstöð Íslands og Landsbankinn.
Innan hátíðarinnar er keppt m.a. um besta leik, bestu mynd, bestu tæknilegu útfærslu og áhorfendaverðlaun.
Hátíðarstjóri hátíðarinnar í ár er Ísak Óli Borgarsson, aðstoðarhátíðarstjóri hátíðarinnar er Natan Ferrua Edwardsson.
Hátíðin verður í ár haldin 16. og 17. febrúar í Bíó Paradís, allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.