fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimÁ döfinniKynningarfundur um niðurdælingu á koldíoxíði í Straumsvík

Kynningarfundur um niðurdælingu á koldíoxíði í Straumsvík

Opinn kynningarfundur á netinu fyrir bæjarbúa

Fyrirtækið Carbfix býður íbúum Hafnarfjarðar á kynningarfund um Carbfix og Coda Terminal verkefnið undir forystu Sævars Helga Bragasonar og Eddu Sifjar framkvæmdastýru Carbfix í beinu streymi.

Fundurinn verður á mánudaginn, 14. febrúar kl. 20-21 á Facebook Live

Coda Terminal verður náttúruleg endastöð fyrir CO2 í Straumsvík og fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu.

Pall­borðsum­ræður:

  • Edda Sif Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix
  • Rannveig Rist, forstjóri álversins í Straumsvík
  • Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði
  • Vala Hjörleifsdóttir, forstöðumaður nýsköpunar og framtíðarsýnar OR

Fundarstjóri verður Sævar Helgi Bragason.

Coda Terminal verkefnið í Straumsvík

Undirbúningur er hafinn að byggingu móttöku- og förgunarmiðstöðvar fyrir koldíoxíð (CO2), CODA Terminal, sem staðsett verður í Straumsvík og mun farga allt að 3 milljónum tonna af CO2 á ári hverju.

Miðstöðin verður fyrsta sinnar tegundar á heimsvísu en hún mun taka á móti CO2 sem flutt verður hingað til lands frá N-Evrópu. Gert er ráð fyrir að um 600 bein og afleidd störf skapist við uppbyggingu og rekstur miðstöðvarinnar.

Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix

„Með starfseminni byggist upp loftslagsvænn iðnaður sem byggir á grænni nýsköpun, íslensku hugviti og umhverfisvernd. Með móttöku og förgun á CO2 á stórum skala tekur Ísland að sér mikilvægt frumkvöðlahlutverk í loftslagsaðgerðum heimsins,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix. „Í CODA verður Carbfix tækninni beitt til varanlegrar steinrenningar á CO2 sem flutt verður hingað til lands með sérhönnuðum skipum sem ganga fyrir umhverfisvænu eldsneyti. Auk þess má farga þar CO2 frá innlendri iðjustarfsemi sem og CO2 sem fangað er beint úr andrúmslofti.“

CODA kolefnisförgunarmiðstöðin verður byggð upp í þremur áföngum og mun í fullri stærð geta fargað 3 milljón tonnum CO2 á ári. Undirbúningsfasi er hafinn með forhönnun og vinnu við leyfisferla. Stefnt er að rannsóknarborun árið 2022, upphafi rekstrar árið 2025 og fullum skala árið 2030.

Náttúruleg leið og nægt geymslurými

Carbfix tæknin felur í sér að leysa CO2 í vatni og dæla djúpt niður í berglög þar sem það steinrennur á innan við tveimur árum. Tæknin krefst einungis rafmagns og vatns og hefur starfsemin óveruleg umhverfisáhrif þar sem hún hraðar náttúrulegum ferlum kolefnishringrásarinnar.

„Nágrenni Straumsvíkur með gnægð af fersku basalti og öfluga grunnvatnsstrauma felur í sér kjöraðstæður til varanlegrar og öruggrar kolefnisförgunar. Innviðir sem byggja þarf upp fyrir starfsemina eru geymslutankar í nágrenni hafnarbakka, lagnir og niðurdælingarholur. Raforkuþörfin er lítil og dreifikerfið er þegar til staðar,“ segir Edda Sif.

Hún bendir jafnframt á að kolefnisförgunargeta í íslensku basalti sé langtum meiri en þörfin því jarðfræðingar Carbfix telji að á landinu öllu megi binda 80-200 falda árlega losun mannkyns.

Hagkvæmara að farga en kaupa losunarheimild

Nýverið setti Alþingi lög sem tryggja örugga föngun, flutning og niðurdælingu koldíxíðs (CO2) á Íslandi. Löggjöfin innleiðir evrópskt regluverk og geta fyrirtæki innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (ETS) nú nýtt sér Carbfix tæknina til frádráttar í losunarbókhaldi sínu.

„Með lagasetningu hefur Alþingi skapað hvata hjá fyrirtækjum til að innleiða tæknilausnir eins og þá sem Carbfix hefur þróað frekar en að greiða fyrir losunarheimildir en verð á þeim hefur hækkað hratt undanfarið og stendur nú í rúmum 6.600 kr/tonn. Til samanburðar má nefna að kostnaður Orku náttúrunnar við að beita Carbfix tækninni til að draga úr losun CO2 og H2S á Hellisheiði um 3.500 kr/tonn,“ segir Edda Sif og bendir á að Carbfix aðferðin hafi verið sannreynd sem hagkvæm og umhverfisvæn leið til að varanlega farga CO2 og koma þannig í veg fyrir neikvæð áhrif þess á loftslagið.

Kjöraðstæður í Straumsvík

Kjöraðstæður eru sagðar við Straumsvík fyrir starfsemi á borð við Coda Terminal. Hafnarmannvirki og dreifikerfi raforku eru til staðar auk þess sem öflugir grunnvatnsstraumar og ferskt basaltberg í nágrenni Straumsvíkur henta einkar vel fyrir Carbfix aðferðina. Forkönnun á skjálftahættu hefur þegar farið fram og benda niðurstöður hennar til þess að hætta á finnanlegri skjálftavirkni á svæðinu sé óveruleg. Innviðir sem byggja þarf upp fyrir starfsemina eru geymslutankar í nágrenni hafnarbakka, lagnir og niðurdælingarholur.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2