Helena Marta Stefánsdóttir náttúrurfræðingur verður leiðsögumaður í sveppagöngu um Höfðaskóg, þriðjudaginn 17. september kl. 17.30.
Mæting er við vesturenda Hvaleyrarvatns, næst Völlunum.
Þátttakendur eru hvattir til að taka með sér körfu eða bréfpoka, hníf og ekki er verra að hafa sveppahandbók með í för.
Byrjendum í sveppatínslu er ráðlagt að læra að þekkja tvær til þrjár algengar tegundir og láta aðra sveppi eiga sig í fyrstu. Síðar má bæta við tegundum til að nýta betur aðgengileg svæði. Til dæmis má nefna kúalubba og furusvepp auk gorkúlunnar.
Kúalubbi
Algengur um allt land og vex með birki og fjalldrapa. Ágætur matsveppur ef hann er ekki maðkétinn. Stafinn má þó vel nýta ef maðkur er í hattinum.
Furusveppur – Smjörsveppur
Fylgir furutrjám og vex oft mikið af honum lengi sumars og fram á haust. Bestir eru ungir stinnir sveppir. Góður matsveppur.
Gorkúla eða sortukúla
er ætisveppur sem algengt er að finna á túnum og í görðum. Meðan kúlan er ung er hún hvít í gegn, kúlulaga og stinn viðkomu og nefnist þá merarostur og er ágætur matsveppur. Eftir því sem hún eldist verður hún græn og grautarkennd að innan og heitir þá gorkúla þar til hún verður að lokum dökkbrún og þurr og að innan eins og hún væri full af ryki en rykkornin eru gró sveppsins. Á því stigi nefnist hún kerlingareldur. Gorkúla og kerlingareldur eru óæt
Kóngssveppur
Ber nafn með rentu þar sem hann ber höfuð og herðar yfir flesta aðra sveppi bæði hvað varðar stærð og bragð. Sjaldgæfur en finnst í skógum og kjarri um allt land. Þar sem kóngssveppur vex á annað borð er yfirleitt allmikið af honum.