Í vetur hafa verið haldin nokkur upplestrarkvöld á Norðurbakkanum í Hafnarfirði og hafa þau verið vel sótt og þótt heppnast með ágætum. Á miðvikudagskvöld erður enn á ný efnt til upplesturs. Þá munu lesa upp skáldin Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Vilborg Bjarkadóttir, Linda Vilhjálmsdóttir og Guðmundur Andri Thorsson. Kynnir kvöldsins verður Anton Helgi Jónsson sem einnig mun lesa ljóð.
Upplesturinn hefst kl. 20 en léttur kvöldverður er á tilboðsverði milli kl. 18 og 20 fyrir þá sem panta fyrirfram.
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson gaf út sína fyrstu ljóðabók árið 1977 og hefur síðan þá sent frá sér jafnt hljómdiska og bækur með ljóðum. Nú síðast ljóðabókina Sumartungl, árið 2016.
Vilborg Bjarkadóttir gaf út sína fyrstu bók árið 2015. Það var ljóðabókin Með brjóstin úti en auk ljóða eru myndir eftir Vilborgu í bókinni. Árið 2016 gaf Vilborg út bókina Líkhamur sem inniheldur örsögur.
Linda Vilhjálmsdóttir gaf út sína fyrstu ljóðabók, Bláþráð, árið 1990 og vakti strax athygli ljóðunnenda. Nýjasta bók hennar, Frelsi, kom út 2015 og var á dögunum tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Guðmundur Andri Thorsson hefur sent frá sér margar skáldsögur en fyrsta ljóðabók hans, Hæg breytileg átt, kom út 2016. Bók hans Og svo tjöllum við okkur í rallið var á dögunum tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Anton Helgi Jónsson, kynnir kvöldsins, er Hafnfirðingur og ljóðskáld. Nýjasta bók hans, Tvífari gerir sig heimakominn, kom út 2014.