Lokahnykkurinn á Sönghátíð í Hafnarborg verða tvennir ólíkir stórtónleikar, aðrir með hetjutenórnum heimsfræga Stuart Skelton á laugardag og á sunnudag heiðra framúrskarandi söngvarar og hljóðfæraleikarar tónskáldið ástsæla Jón Ásgeirsson. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan 17.
Óperustjarnan Stuart Skelton
Óperustjarnan Stuart Skelton hefur komið fram í helstu óperuhúsum heims. Þó söng hans hafi verið aflýst eða frestað víða um heim vegna kórónaveirunnar, þar á meðal við Metropolitan óperuhúsið í haust, búa Íslendingar við þann lúxus að geta notið söng hans á opinberum tónleikum á Sönghátíð. Þau Matthildur Anna Gísladóttir píanóleikari flytja ljóðadagskrá undir heitinu The Modern Romantic með lögum eftir Percy Grainger, Franz Liszt, Richard Wagner, Sigvalda Kaldalóns, Erich Korngold og Joaquín Turina.
Heiðurstónleikar Jóns Ásgeirssonar
Á heiðurstónleikum Jóns Ásgeirssonar á sunnudag flytja Kristinn Sigmundsson bassi, Herdís Anna Jónasdóttir sópran, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran, Hrólfur Sæmundsson baritón, Gunnlaugur Bjarnason, baritón, Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari og Francisco Javier Jáuregui gítarleikari söngtónlist eftir Jón.
Jón fæddist árið 1928 og hefur helgað líf sitt og starf tónlist. Hann hefur í áranna rás starfað sem stjórnandi lúðrasveita, kórstjóri og tónlistarkennari, skrifað tónlistargagnrýni í tugi ára, en þekktastur er hann án efa sem tónskáld. Hann hefur samið sönglög sem hvert mannsbarn á Íslandi þekkir, útsett af virðingu og ótrúlegu innsæi ógrynni íslenskra þjóðlaga og dansa, samið ýmsa einleikskonserta, hljómsveitar- og kammerverk og þrjár óperur í fullri lengd.
Á sunnudaginn 12. júlí lýkur því Sönghátíð í Hafnarborg, sem COVID-19 tókst ekki að koma í veg fyrir, þó útlitið hafi verið á ýmsa vegu í aðdraganda hátíðarinnar. Mikill fjöldi áheyrenda hefur sótt viðburði hátíðarinnar, sem staðið hefur frá 2. júlí með margvíslegum tónleikum og námskeiðahaldi. Listrænir stjórnendur hennar eru Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Francisco Javier Jáuregui.
Sönghátíð er haldin í nánu samstarfi við Hafnarborg með stuðningi frá Hafnarfjarðarbæ, Landsbankanum og Tónlistarsjóði.