fbpx
Miðvikudagur, júlí 17, 2024
HeimÁ döfinni„Sunnan yfir sæinn breiða“ – Vortónleikar Barbörukórsins

„Sunnan yfir sæinn breiða“ – Vortónleikar Barbörukórsins

Tónleikar í Hásölum á laugardaginn kl. 17

Barbörukórinn fagnar vorinu með flutningi á vönduðu úrvali íslenskra ættjarðarlaga, þjóðlaga, fjárlaga og dægurlaga á tónleikum í Hásölum á laugardaginn kl. 17.

Efnisskráin er  rammíslensk í tilefni af 100 ára afmælisári fullveldisins og inniheldur eitthvað fyrir alla og er einkar hlustendavæn og þægileg; eins og fuglasöngur vorsins með birtu og hlýju. Valin eru lög sem lengi hafa fylgt þjóðinni og Íslendingum þykir sérlega vænt um, allt frá Smávinum fögrum Jóns Nordals til Tveggja stjarna Megasar. Og að sjálfsögðu fylgja ættjarðarlögin með í þjóðræknisanda. Kórinn flytur efnisskrána án undirleiks.

„Óhætt er að segja að þessi efnisskrá verði áhugaverð í flutningi Barbörukórsins sem þekktur er fyrir fágaðan söng og blæbrigðaríka túlkun,“ segir í tilkynningu.

Hér má sjá og heyra upptöku sem gerð var á tónleikum kórsins í Marienkirche í Berlín sumarið 2015:

Til þín, drottinn hnatta og heima

Lag: Þorkell Sigurbjörnsson. Texti: Páll Kolka Flytjandi: Barbörukórinn í Hafnarfirði. Stjórnandi: Guðmundur Sigurðsson. Upptaka frá tónleikum í Marienkirche…

 

Um kórinn

Barbörukórinn er kammerkór, stofnaður vorið 2007 af Guðmundi Sigurðssyni og nokkrum lærðum hafnfirskum söngvurum. Hann fagnar því 11 ára afmæli um þessar mundir. Kórinn kennir sig við heilaga Barböru en stytta af dýrlingnum fannst árið 1950 við uppgröft í fornri kapellu í Kapelluhrauni í Hafnarfirði. Kórinn kemur reglulega fram við helgihald Hafnarfjarðarkirkju auk tónleikahalds og söngs við útfarir þar og víðar. Barbörukórinn hefur lagt sérstaka áherslu á íslenskan tónlistararf og hefur gefið út geisladiskinn „Syngið Drottni nýjan söng“ þar sem fluttar eru útsetningar Smára Ólasonar á perlum úr íslenska tónlistarararfinum. Diskurinn fékk góðar viðtökur og mikið lof gagnrýnenda. Sumarið 2015 kom kórinn fram á tónleikum í Marienkirche í Berlín og við messu í Berliner Dom. Við bæði tækifæri var flutt íslensk kirkjutónlist eftir nokkur af fremstu tónskáldum Íslendinga. Haustið 2016 var kórinn valinn sem fulltrúi Íslands á Norrænt kirkjutónlistarmót í Gautaborg þar sem kórinn flutti íslenska kirkjutónlist á tónleikum í Vasa-kirkjunni þar í borg við mjög góðar undirtektir. Í desember sl. kom kórinn fram í Hörpu á eftirminnilegum tónleikum með hinum heimsþekkta djasspíanista Jan Lundgren þar sem fluttar voru endurreisnarmótettur við spuna Lundgrens. Tónleikarnir fengu frábærar viðtökur og kórinn mikið lof gagnrýnenda.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2