fbpx
Þriðjudagur, nóvember 5, 2024
target="_blank"
HeimÁ döfinniSýningin „Töfrafundur – áratug síðar“ opnuð á morgun í Hafnarborg

Sýningin „Töfrafundur – áratug síðar“ opnuð á morgun í Hafnarborg

Á laugardaginn verður sýningin Töfrafundur – áratug síðar opnuð í Hafnarborg en að sýningunni stendur spænsk-íslenska myndlistartvíeykið og handhafar Íslensku myndlistaverðlaunanna 2021, Libia Castro & Ólafur Ólafsson, ásamt hinum teygjanlega listamanna- og aktívistahóp Töfrateyminu.

Nú eru tíu ár liðin síðan listamennirnir héldu síðast einkasýningu í Hafnarborg, þá byggða á stjórnarskránni frá 1944, og eins er áratugur síðan tillagan að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland var samin.

Opnunarhátíðin stendur yfir kl. 12-17 og verða tónlistaratriði í tengslum við sýninguna á dagskrá reglulega yfir daginn.

Gestir eru beðnir um að bera grímur og virða fjarlægðarmörk.

Sýningin er næsti kaflinn í starfi listamannanna, sem einkennist af félagslegri virkni og inngripi, þar sem þau kanna tengslin á milli listar og aktívisma, auk þess sem þau vinna með kynngi listarinnar og mögulegan kraft hennar til að stuðla að samfélagslegum breytingum. Efni sýningarinnar er hin nýja stjórnarskrá Íslands, sem var skrifuð í framhaldi af kröfum almennings um siðferðislegar umbætur í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008, en verkefnið vakti heimsathygli vegna þess dæmalausa og lýðræðislega ferlis sem þar var fylgt. Þann 20. október 2012 samþykkti íslenska þjóðin svo loks hina nýju stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Nýja stjórnarskráin hefur hins vegar enn ekki verið samþykkt af Alþingi Íslendinga.

Töfrafundur – áratug síðar er framhald verks listamannanna Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland. Þessi lifandi samstarfsgjörningur fór fram þann 3. október 2020, í Listasafni Reykjavíkar, á götum miðborgarinnar, við Stjórnarráðið og Austurvöll, fyrir framan Alþingishúsið. Þar buðu Libia og Ólafur, í samvinnu við Cycle listahátíð, stórum hópi tónskálda, tónlistarmanna, myndlistarfólks, borgarahreyfinga, aðgerðarsinna og almennings að taka þátt í því að búa til margradda tónlistargjörning, sem blés lífi í allar 114 greinar hinnar nýju stjórnarskrár, sem samin var árið 2011.

Töfrafundur – áratug síðar er sýning sem er vissulega opin í annan endann. Hún er þannig hluti af yfirstandandi hreyfingu og baráttu, svo verkefnið sjálft er enn í mótun og verkið mun taka breytingum á sýningartímanum. Þá mun salurinn á jarðhæð safnsins verða nýttur sem vinnurými fyrir opna viðburði, vinnustofur, fundi, rannsóknir og gerð nýrra verka. Auk þess verður málþing haldið um miðjan maí, þar sem fjallað verður um nýju stjórnarskrána, sambærilegar hreyfingar á heimsvísu, list og aktívisma. Með þessum fjölbreytta hætti munu Libia og Ólafur taka yfir safnrýmið, ásamt Töfrateyminu, og umbreyta því í vettvang gagnrýnnar hugsunar, þar sem list og aktívismi mætast, á sama tíma og starf listamannanna og inngrip þeirra í hina almennu, pólitísku umræðu heldur áfram að þróast.

Libia Castro & Ólafur Ólafsson hafa átt í farsælu samstarfi síðan 1997. Þau starfa í Reykjavík, Berlín, Rotterdam og Málaga.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2