Hlauparöð FH og Bose samanstendur af þremur hlaupum síðasta fimmtudag í janúar, febrúar og mars. Þetta er árlegur viðburður og eru hlaupin gríðarlega vinsæl en þegar hafa hátt í 400 manns skráð sig í fyrsta hlaupið sem verður kl. 19 á fimmtudaginn.
Hlaupahópur FH, sem er hluti af frjálsíþróttadeild FH, stendur fyrir hlaupinu en hópurinn fagnaði nýlega 10 ára afmæli sínu. Vel er staðið að
hlaupinu, brautarvarsla er góð, hraðastjórar eru til að aðstoða fólk við að halda ákveðnum hraða og stemmning mikil á brautinni, tónlist í marki auk þess sem hlaupaleiðin er mjög skemmtileg.
Hlaupið er frá upphafspunkti gegnt íþróttahúsinu á Strandgötu, eftir Strandstígnum meðfram strandlengju Hafnarfjarðar til norðurs, áfram Herjólfsbraut, beygt til vinstri inn Hraunvang og Naustahleinin hlaupin og aftur inn á Herjólfsbraut og til baka sömu leið. Hlaupaleiðin um Naustahlein er nýjung og því hlaupið styttra inn Herjólfsbrautina. Þá er hlaupið að hluta á götunni frá Hraunvangi og niður að sjó og eru ökumenn beðnir að taka tillit til hlauparanna en gæsla verður á leiðinni.
Leiðin er nokkuð flöt og ákjósanleg til að bæta tíma sinn þó alltaf megi búast við vetrarveðri og erfiðri færð á þessum árstíma.
Hægt er að skrá sig hér og sjá hverjir eru skráðir:
http://bit.ly/hlaupaseria_FH_og_BOSE