Á laugardaginn, 18. maí, verður tónlistarhátíðin Melodica Hafnarfjörður haldin í fyrsta sinn. Kaffihúsið Pallett, Strandgötu er vettvangur hátíðarinnar og stendur hátíðin frá kl. 16 til 22.30.
Þeir listamenn sem koma fram á hátíðinni eru Charlie Rauh (frá Bandaríkjunum), One Bad Day, Beggi Smári, Sveinn Guðmundsson, Fanney Kristjáns, Markús, Tryggvi, Inga Björk og fleiri. Í stað eiginlegs aðgangseyris gefst gestum kostur á að leggja fram frjáls peningaframlög í samskotabauk sem verður á staðnum.
Melodica festival er alþjóðlegt tengslanet listamanna sem heldur sjálfstæða tónleika án yfirbyggingar. Hugmyndin byggir á að efla samfélag og samstarf tónlistarfólks á hverjum stað og á milli landa. Leitast er við að skapa heimilislegt andrúmsloft og notalega stemmingu á hverjum tónleikum.
Upphafsmaður Melodica er tónlistarmaðurinn Pete Uhlenbruch, sem kemur jafnan fram undir nafninu Owls of the Swamp. Hann hélt fyrstu hátíðina í Melbourne í Ástralíu árið 2007.
Hátíðir undir merkjum Melodica hafa verið haldnar í Þýskalandi, Frakklandi, Bandaríkjunum (Nashville), Danmörku, Hollandi, Englandi, Noregi og Austurríki. Frá árinu 2008 hefur hátíðin verið haldin á hverju ári í Reykjavík. Og nú er komið að Hafnarfirði.