Árið 2020 er merkisár í sögu Tónlistarskóla Hafnarfjarðar en þá eru 70 ár liðin frá stofnun skólans. Árið 1946 var Tónlistarfélag Hafnarfjarðar stofnað til að stuðla að tónleikahaldi í bænum og veturinn 1949-1950 stóð félagið fyrir kennslu í píanóleik. Í september 1950 ákvað stjórn félagsins að stofna Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og hóf hann starfsemi þá um haustið með 16 nemendum, sem flestir stunduðu píanónám.
Dagur tónlistarskólanna á laugardag
Ýmislegt verður gert í tilefni þessa á árinu og verður greint frá því eftir því sem líður á árið. Dagur tónlistarskólanna er fyrsti viðburðurinn af mörgum en hann er á laugardaginn.
Allir hjartanlega velkomnir að líta við og hlýða á unga fólkið í bænum okkar. Þau eiga kannski eftir að hafa atvinnu af því að starfa sem tónlistarmenn.
588 nemendur við skólann
Í ár eru 588 nemendur skráðir við skólann. Þeir skiptast þannig í deildir: Blásturdeild með 97 nemendur sem læra á ýmsar stærðir og gerðir blokkflauta, básúnu, horn, klarinett, kornett, óbó, saxófón, trompet og þverflautu. Gítardeild með 58 nemendur, harmónikudeild með 5 nemendur, píanódeild með 139 nemendur, slagverksdeild með 27 nemendur, strengjadeild með 52 nemendur sem læra á fiðlu, víólu, selló og kontrabassa, Suzukideild með 28 nemendur sem læra á fiðlu, píanó og selló, söngdeild með 21 nemanda og Tónkvísl, sem er hryndeild skólans en þar læra nemendur á píanó, rafgítar, rafbassa, slagverk og söng. Auk þess er starfandi forskóli og á fyrsta ári eru 61 nemandi og á öðru ári sem er blástursfornám sem er nýjung við skólann eru 45 nemendur sem læra á básúnu, horn, klarinett, saxófón, trompet og þverflautu. Starfandi er fjöldi hljómsveita og samspila svo sem sinfóníuhljómsveit, lúðrasveit, gítarsveit, strengjasveit og fleira.
55 kennarar
Úrvalslið kennara starfar við skólann eða samtals 55 flestir í fullu starfi en aðrir í hlutastarf þar sem margir þeirra eru samhliða kennslu starfandi tónlistarfólk á ýmsum sviðum tónlistarinnar.
Fjölmargir hafa stundað nám í gegnum árin við skólann og hafa margir stigið þar sín fyrstu spor á sviði tónlistar. Af þeim sem eru í sviðsljósinu þessa dagana má nefna Hildi Guðnadóttur sem sló sína fyrstu strengi á selló hér við skólann þá 7 ára gömul en hún sem kunnugt er samdi tónlistina við þáttaröðina Chernobyl sem hún hefur hlotið mikið lof fyrir og fjölda verðlauna og kvikmyndina Joker þar sem hún er tilnefnd til Bafta- og Óskarsverðlauna. Einnig má nefna Báru Gísladóttur sem lærði á kontrabassa hér við skólann og hefur fengið fjölda viðurkenninga og er meðal annars með verk á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum annað kvöld auk þess að vera með margt fleira í farvatninu
Dagskráin laugardaginn 1. febrúar:
- 13:00 Torgið Sinfóníuhljómsveit
- 13:30 Hásalir Suzuki deild
- 14:00 Torgið Lúðrasveitir
- 14:30 Hásalir Einleikur – samspil
- 15:00 Torgið Hljómsveitir
- 15:30 Hásalir Einleikur – samspil
Þessi kynning er EKKI kostuð af Tónlistarskólanum/Hafnarfjarðarbæ