fbpx
Fimmtudagur, júlí 18, 2024
HeimFrá ritstjóraAf hverju eru skipulagsmál mikilvæg?

Af hverju eru skipulagsmál mikilvæg?

Eitt af stærstu verkefnum hverrar sveitarstjórnar eru skipu­lagsmál. Allt annað byggist á að það sé vel unnið, gert ráð fyrir fjölbreyttu framboði af íbúðum og iðnaðarhúsnæði, skólum, þjón­ustu, afþreyingu og ekki síst góðu útivistarsvæði.

Sennilega eru skipulagsmál sem Hafnfirðingar deila mest um og sýnist sitt hverjum. Enginn vill missa sitt útsýni eða önnur gæði og fjárfestar vilja fá sem mest út úr sínum lóðum og skeyta stundum lítt um hvaða afleiðingar það hefur í för. En verra er þegar bæjarstjórn samþykkir slíka græðgi þó óneitanlega fáist meiri skatttekjur af aukinni nýtingu lóða.

Að dæla niður koldíoxíði hlýtur að teljast mjög jákvætt og flestir eru því fylgjandi hér í Hafnarfirði hafi það ekki óæskilegar afleiðingar. Á sama tíma og bæjaryfirvöld dásama slíka umhverfisvernd er verið að úthluta lóðum til mengandi starfsemi. Grófi iðnaðurinn er að flytjast úr nágrannasveitarfélögun­um til Hafnarfjarðar. Undir slíka starfsemi þarf stórar lóðir og nýtingarhlutfall þeirra er lágt og skatttekjur því hlutfallslega lágar.

Maður veltir því fyrir sér hvort heildarmyndin sé eitthvað óskýr eða jafnvel rugluð og til að sjá hana þurfi að kaupa einhverja áskrift.

Fagrar áætlanir á blaði eru lítils virði ef ekki er eftir þeim farið.

Að mörgu er að hyggja í stóru verkefni eins og Coda terminal verkefninu þar sem dæla á niður gríðarlegu magni og til þess þarf að nota ennþá meira af grunnvatni sem þó á mest að skila sér aftur skv. áætlunum. Í dag er kynnt að boraðar verði holur á nokkrum lóðum skammt frá Reykjanesbrautinni en hvað verður síðar? Hversu langt inn í hraunið verður farið eða verður búið að byggja geymsluhúsnæði og ryðja ósnortið hraun undir grófan iðnað, hraun sem hefur að geyma sögur liðinna alda.

Ekki er hægt að búast við að allar fornminjar verði varðveittar en dapurt er að sjá þær eyðilagðar vegna áhugaleysis þeirra sem bera ábyrgð á að halda utan um söguna. Umhverfið okkar er gríðarlega dýrmætt og mikilvægt að það fái viðunandi virðingu og verði ekki kastað á glæ fyrir skammtíma gróða.

En upplýsandi umræða og góð kynning er forsenda góðs samtals við bæjarbúa. Eflum kynn­ingar­starfið. Við getum gert betur.

Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2