fbpx
Miðvikudagur, janúar 8, 2025
HeimFrá ritstjóraBærinn í hrauninu

Bærinn í hrauninu

Leiðarinn 21. desember. 2023

„Bærinn í hrauninu“ hefur Hafnarfjörður löngum verið kallaður enda einstakt bæjarstæði þar sem fólk byggði sér hús í skjóli í hrauninu og fólk á hestum smokraði sér framhjá húsum og hraunklettunum áður en bærinn var fyrst skipulagður. Síðan hefur bærinn þanist út og jafnvel yfir á hraun sem rann eftir að Ísland byggðist enda eldstöðvar allt í kringum okkur. Blessunarlega hefur Búrfellseldstöðin ekki látið kræla á sér í um 8.000 ár en frá henni rann mikið hraun sem Hafnarfjarðarbær og Garðabær standa að hluta á.

Á Kapelluhrauninu sem rann frá 1151 er hluti af iðnaðarsvæðinu á Hellnahrauni og álverið í Straumsvík. Á Hellnahrauni sem rann frá um 950 er hluti af Völlunum, Ásvellir, Byggðahverfið og nýbyggingasvæðið í Hamranesi. Já, við höfum byggt á því sem við köllum nútímahraun. Eðlilega veltur fólk því fyrir sér hvort eldsumbrot á Reykjanesi geti haft áhrif á okkur og hraun runnið úr einhverjum af hinum fjölmörgu gígum í kringum okkur. En okkar getgátur virðast álíka raunhæfar og færustu vísindamanna því náttúran lætur ekki að sér hæða.

Það hljóta að vera miklar raunir íbúa Grindavíkur að búa við þennan raunverulega ótta en vonandi fær íbúðabyggðin að sleppa og íbúar fái um síðir að halda heim á leið.

Fjarðarfréttir eru nú að halda inn á sitt 22. útgáfuár og 9. útgáfuár núverandi útgefanda. Áætlað er að halda útgáfu áfram í svipaðri mynd og síðustu ár þó stöðugt þrengi að útgáfu prentaðra miðla. Á örfáum árum hefur kostnaður 16 síðna blaðs hækkað um 79% og ný gjaldskrá Póstdreifingar gerir nánast vonlaust að gefa út 8 síðna blað.

Vonast er eftir betri skilningi bæjaryfirvalda í Hafnarfirði á nauðsyn útgáfu bæjarblaðs og auknu samstarfi. Fjarðarfréttir hafa alltaf verið og verður gagnrýninn miðill sem leitast við að birta fjölbreyttar fréttir úr bæjarlífinu og kallar eftir samtali við bæjarbúa og bæjaryfirvöld.

Tekin hefur verið í gagnið nýjung í birtingu blaðsins á vefnum, nýtt vefapp sem finna má á slóðinni vefblad.fjardarfrettir.is en þar er hægt að lesa öll blöð síðustu ára á auðveldan hátt og við skoðun á nýjum blöðum er hægt að smella á viðkomandi frétt og opnast hún þá í nýjum glugga. Þar gæti verið að finna viðbótarmyndir eða texta sem ekki hafa komist fyrir í prentaðri útgáfu og hægt er einnig að leita að efni í öllum blöðum.

Í janúar kemur svo nýtt frítt snjallsímaapp, Fjarðarfréttir sem gerir það leikandi létt að skoða blaðið á vefnum og fá tilkynningar um nýja útgáfu. Fleira verður í boði.

Ég óska þér lesandi góður gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á árinu sem er að líða.
  
Guðni Gíslason ritstjóri.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

Gleðilegt nýtt ár

Yfirkeyrsla

Beina brautin

H2