Mikil umskipti urðu í alþingiskosningunum um liðna helgi. Ekki urðu aðeins umskipti í fylgi flokkanna, heldur urðu miklar mannabreytingar á þingi.
Vinstri græn og Píratar þurrkuðust alveg út af þingi og Vinstri græn misstu einnig allan ríkisstyrk sem flokkar sem ná lágmarksfylgi fá.
Það er alltaf eftirsjá af flokkum sem markað hafa spor í starfi sínu á Alþingi og óháð hvaða skoðun fólk fylgir þá er ávallt gott að hafa flokka sem eru tilbúnir að berjast fyrir málefnum og skapa umræðu.
Þrátt fyrir mikla gagnrýni á stjórn Reykjavíkurborgar þar sem Samfylkingin hefur verið sterk og ekki síst á Dag B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóra þá vann Samfylkingin stærsta kosningasigurinn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur. Útstrikanir færðu aðeins Dag niður um eitt sæti sem kemur þó ekki að sök fyrir hann. Hins vegar varð Samfylkingin aðeins þriðja stærst í SV-kjördæmi eins og í Suður og NV-kjördæmi. Jókst fylgi Samfylkingarinna þó um heil 138%. Sjálfstæðisflokkurinn varð stærstur í SV-kjördæmi, kjördæmi Bjarna Benediktssonar, og af stjórnarflokkunum missti Sjálfstæðisflokkurinn minnsta fylgi og mun minna en skoðanakannanir höfðu gert ráð fyrir. Hins vegar er þetta versti árangur Sjálfstæðisflokksins á landsvísu frá upphafi.
Hafnarfjörður missir sinn litríka alþingsmann og fv. bæjarfulltrúa, Ágúst Bjarna Garðarsson af þingi en Framsókn náði engum þingmanni í SV-kjördæmi. En í stað hans kemur Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði og bæjarfulltrúi sem uppbótarþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, tryggði hins vegar stöðu sína en flokkurinn varð næst stærstur flokka í SV-kjördæmi og næstum tvöfaldaði fylgi sitt.
En það eru víða mannabreytingar því um áramótin tekur Valdimar Víðisson úr Framsókn við sem bæjarstjóri í Hafnarfirði skv. meirihlutasamkomulagi við Sjálfstæðisflokkinn. Tekur hann við af Rósu Guðbjartsdóttir sem ætlar að halda áfram sem bæjarfulltrúi jafnframt því að verða alþingismaður auk þess að [þiggja] fá full biðlaun næstu 6 mánuði skv. ráðningarsamningi. Skv. heimildum blaðsin hefur Valdimar hins vegar sagt upp starfi sínu sem skólastjóri Öldutúnsskóla frá áramótum en hann hefur bæði þegið laun sem skólastjóri og bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs m.m. Allt er þetta löglegt en spurning hvort hinum almenna launþega þyki þetta siðlegt.
Bæjarbúar eru hvattir til að skoða úrvalið í Hafnarfirði áður en leitað er annað í jólagjafahugleiðingum. Með verslun í Hafnarfirði stuðlar fólk að því að verslun haldist blómleg í bænum og minnkar óþarfa akstur í mikilli umferð. Þeim sem auglýsa í blaðinu eru þakkað því með viðskiptum við blaðið er tryggt að hægt sé að halda úti óháðu bæjarblaði í Hafnarfirði.
Enn er tækifæri því jólablaðið kemur út 19. desember.
Guðni Gíslason ritstjóri.