Fagnað verður 100 ára afmæli Hellisgerðis á laugardaginn.
Garðurinn var mikið stolt Hafnfirðinga í marga áratugi og það var áhugafólk sem vann að stofnun hans, félagar í Málfundafélaginu Magna.
Haustið 1922 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að láta félaginu í té hið umbeðna garðstæði endurgjaldslaust. Það skilyrði fylgdi þó samþykkt bæjarstjórnar að skemmtigarðurinn yrði opinn almenningi á sunnudögum á sumrin og að ef eigi yrði búið að girða svæðið af og hefja ræktun þar innan tveggja ára, missti félagið rétt sinn til landsins. Vorið eftir var búið að girða Hellisgerði af og þann 24. júní var haldin þar útiskemmtun sem hafði þann tilgang að afla fjár til starfseminnar og kynna fyrir bæjarbúum. Við það tækifæri afhenti Magnús Jónsson bæjarfógeti Málfundafélaginu Magna Hellisgerði fyrir hönd bæjarfélagsins og óskaði þeim velfarnaðar í starfinu. Skemmtunin þótti takast svo vel að ákveðið var að halda Jónsmessuhátíð árlega til fjáröflunar. Til skemmtunar voru ræðuhöld, lúðrablástur, söngur og dvöl í gerðinu sjálfu.
Í skipulagsskrá fyrir garðinn kemur fram að tilgangur hans var fyrst og fremst þvíþættur. Í fyrsta lagi að vera skemmtigarður, þar sem bæjarbúar áttu kost á að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum sínum. Í öðru lagi að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt og í þriðja lagi að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar.
Eftir að félagið Magni leið undir lok tók Hafnarfjarðarbær við rekstri Hellisgerðis og hefur garðurinn átt bæði góð og slæm tímabil. Nú er vakningin vonandi nægilega sterk til að tryggt verði að garðinum verði haldið við af sóma og hann þróaður í anda upphaflegra áætlana.
Bæjarbúum er boðið í 100 ára afmælishátíð í Hellisgerði á laugardaginn og vonandi verður það til að efla enn fremur áhuga á garðinum og verndun hans í framtíðinni.
Hátíðin stendur kl. 14-16.30
Guðni Gíslason ritstjóri.